Skip to main content

Stækka iðnaðar- og athafnasvæðið við Hjallaleiru

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 12. ágú 2025 10:27Uppfært 12. ágú 2025 10:30

Vegna áforma um breytta legu þjóðvegarins fyrir botni Reyðarfjarðar er þörf á að hnika til lóðamörkum iðnaðarsvæðisins við Hjallaleiru en jafnframt skal stækka það til austurs um 25 metra.

Þessar deiliskipulagsbreytingar voru kynntar og samþykktar af hálfu bæjarráðs fyrr í sumar en áform Vegagerðarinnar gera ráð fyrir færslu núverandi vegstæðis þjóðvegarins utar en nú er raunin þannig að þjóðvegurinn í kjölfarið tengist hringtorginu sem nú er til staðar rétt innan bæjarmarkanna. Þau áform eru reyndar ekki tímasett en ný, tvöföld brú yfir Sléttuá er hluti þeirra áforma.

Að sögn Ragnars Sigurðssonar, formanns bæjarráðs Fjarðabyggðar, er þörfin á breyttu skipulagi bæði tilkomin vegna nýs vegarstæðis þjóðvegarins í framtíðinni en ekki síður er aðsókn í iðnaðarlóðir í sveitarfélaginu sem stækkun svæðisins mun koma til móts við.

„Bæði er ásókn í lóðir en ekki síður eru aðilar sem þegar eru með starfsemi á svæðinu að kalla eftir stækkun vegna aukinna umsvifa. Þetta þýðir að við einangrum iðnaðarsvæðið aðeins frá vegstæðinu nýja sem koma skal og önnur inn- og útkeyrsla af iðnaðarsvæðinu verður raunin. Það eru fyrirtæki á staðnum nú þegar sem þurfa að stækka við sig og þessi breyting mun gera fyrirtækjunum það kleift.“

Skipulagsbreytingin er nú til umsagnar í Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar og verður það fram til 11. september.

Iðnaðarsvæðið við Hjallaleiru fyrir miðri mynd en það stækkar til austurs ef áform sveitarfélagsins ganga eftir. Mynd ALTA/Fjarðabyggð