Stakt troll reyndist Blængi vel
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 03. maí 2022 10:43 • Uppfært 03. maí 2022 11:03
Tilraunir Blængs NK, skips Síldarvinnslunnar, með að veiða með einu trolli virðast gefa góða raun. Skipið kom nýverið til Norðfjarðar með einn verðmætasta afla sem íslenskur bolfisktogari hefur komið með til lands eftir slíka veiðiferð í Barentshaf.
Um þetta er fjallað á vef Hampiðjunnar sem framleiddi trollið, H-Toppur 127. Þar segir að vakið hafi athygli að Blængur hafi fengið lítið minni afla í eitt troll heldur en togararnir sem toguðu með tveimur samtímis.
„H-Toppur er botntroll sem ætlað er til veiða á öllum botnlægum fisktegundum við Íslandsstrendur sem nýttar eru. Höfuðlínuhæðin er mest 6,1 metri og Rockhopperinn er 40,8 metra langur. Það eru um 100 metrar niður að poka,“ segir Hermann Guðmundsson, rekstrarstjóri og netagerðarmeistari hjá Hampiðjunni á Akureyri sem teiknaði trollið.
Hann segir að hugsunin á bak við hönnunina hafi verið að skapa alhliða veiðarfæri sem bæði tæki á lengd og breidd. Miðað við umsagnir áhafnarinnar á Blængi virðist það hafa tekist.
Skipstjórar Blængs gefa trollinu líka góða umsögn og staðfesta að Blængi hafi gengið vel að halda í við tveggja trolla skipin. „Við höfum verið með H-Topp 127 og reyndar líka H-Topp 115. Trollið hefur reynst okkur ákaflega vel. Við erum yfirleitt með höfuðlínuna í 3,5 faðma hæð og 90 til 100 faðma á milli hlera,“ segir annar þeirra, Bjarni Ólafur Hjámarsson.
Sigurður Hörður Kristjánsson var skipstjóri í veiðiferðinni sem gaf 1.175 tonn af fiski og aflaverðmæti upp á 635 milljónir króna. Haft er eftir Sigurði Herði að áberandi minna sé af þorski í norsku lögsögunni í Barentshafi en meira um tegundir eins og gullkarfa, ýsu og rækju.