Skip to main content

„Starfsemin verður að vera tryggð því augljóst er að við deyjum öll“

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 23. okt 2023 06:28Uppfært 23. okt 2023 06:28

Jódís Skúladóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs af Fljótsdalshéraði, hefur lagt fram þingsályktunartillögu um skipun starfshóps um umönnun og geymslu líka. Jódís segir skipta máli hvar lík séu geymd frá dánarstund að greftrun og þeim sé sýnd virðing á þeim tíma en aðstæður séu mjög mismunandi eftir svæðum.


„Hvar lík eru geymd frá dánarstundu og þar til kemur að útför skiptir máli. Það skiptir máli fyrir aðstandendur að það sé borin virðing fyrir þessari stundu, fyrir þessari upplifun og fyrir líðan þeirra,“ sagði Jódís í umræðum á Alþingi þegar hún fylgdi tillögunni eftir nýverið.

Tillagan felur í sér að dómsmálaráðherra skipi starfshóp til að taka út aðstöðu til að annast og geyma lík, aðgengi að líkhúsum eða viðeigandi húsnæði, regluverki og mögulegum úrbótum. Hópurinn skili af sér niðurstöðum fyrir 1. maí.

Efnislega hefur Jódís lagt fram eins tillögur síðustu tvo þingvetur. Á þeim tíma hafa meðal annars í umsögnum komið fram upplýsingar um núverandi ástand. Þannig benti Samband íslenskra sveitarfélaga á það síðasta vetur að lagaumhverfið væri óljóst og því gjarnan leitað til sveitarfélaga um fjárframlög til líkgeymslna án lagastoðar.

Í annarri umsögn var rifjað upp að Umboðsmaður Alþingis hefði í áliti fyrir tæpum 20 árum kallað eftir að skýrum reglum um líkhúsmál, meðal annars gjaldskrá þeirra. Síðan virðist hins vegar lítið hafa gerst.

Lögin ekki skýr


Jódís benti á að víða væru vandamál á landsbyggðinni, viðunandi geymsluaðstaða ekki fyrir hendi eða komið upp hjá heilbrigðisstofnunum, gjarnan fyrir gjafafé. Staðan þýði óþægindi og kostnað fyrir aðstandendur, sérstaklega á landsbyggðinni þar sem aðstaðan sé takmörkuð.

Í ræðu sinni sagði Jódís erfitt að missa náinn ástvin en aðstandendur þyrftu að geta treyst á að virðing væri sýnd hinum látna alla leið.

„Hvar lík eru geymd frá dánarstundu og þar til kemur að útför skiptir máli. Það skiptir máli fyrir aðstandendur að það sé borin virðing fyrir þessari stundu, fyrir þessari upplifun og fyrir líðan þeirra. Starfsemi þessi verður að vera tryggð í ljósi þess sem augljóst er, að við munum öll deyja. Í lögum er ekki skýrt hver skuli tryggja geymslu líka,“ sagði Jódís.

Misjafnt hver rekur líkhúsin


Fleiri þingmenn úr Flokki fólksins, VG og Framsóknarflokki eru meðflutningsmenn að tillögunni. Þeirra á meðal er Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins frá Fáskrúðsfirði. Hún lagði fyrir tveimur árum fram fyrirspurnir til þriggja ráðherra um líkgeymslur.

Svörin sýna að misjafnt er hvernig rekstrinum er háttað. Þrjú sveitarfélög reka líkgeymslur, þar á meðal Fjarðabyggð meðan ríkið rekur líkgeymslu á Vopnafirði. Víða eru líkgeymslur eða kæliherbergi í kirkjum auk þess sem flestar heilbrigðisstofnanir eiga að vera með geymslur.

Í umræðunum um daginn sagði Líneik Anna ljóst að engin heildarsýn væri yfir þessi mál. Hún sagðist þekkja best til á Austurlandi og þar hefðu félagasamtök oft gefið líkgeymslur sem staðsettar hefðu verið í heilbrigðisstofnunum, hjúkrunarheimilum og jafnvel björgunarsveitarhúsum. Stundum úreltust geymslurnar og þá væri óljóst hver ætti að kosta endurbæturnar. Þá hefði staðan breyst með sameiningu heilbrigðisstofnana og jafnvel ekki þörf á líkgeymslu í hverju byggðarlagi lengur.