Skip to main content

Starfsfólkið úr frystihúsinu vill búa áfram á Seyðisfirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. sep 2023 12:04Uppfært 21. sep 2023 12:05

Starfsfólk bolfiskvinnslu Síldarvinnslunnar á enn eftir að fá formleg uppsagnarbréf en tilkynnt var í síðustu viku að vinnslunni verði lokað formlega í lok nóvember. Formaður AFLs starfsgreinafélags segir fólkið enn vera að melta tíðindin og átta sig á stöðunni.


Fulltrúar AFLs og Vinnumálastofnunar funduðu með starfsfólki vinnslunnar á mánudagsmorgun. „Við fórum yfir réttindi samkvæmt kjarasamningum og í atvinnuleysi. Það voru margar spurningar um það tímabil,“ segir Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLs.

Síldarvinnslan tilkynnti á þriðjudaginn í síðustu viku að bolfiskvinnslu fyrirtækisins á Seyðisfirði verði lokað 30. nóvember næstkomandi. Eftir því sem Austurfrétt kemst næst hefur öllu starfsfólki verið heitinn fjögurra mánaða uppsagnafrestur.

„Fólkið hefur ekki fengið uppsagnarbréfin, aðeins þessa tilkynningu og fund í síðustu viku þannig það er ekki ljóst hvenær uppsögn tekur gildi. Starfsfólkið sagði það hafa komið fram á fundinum í síðustu viku að það yrði á launum út janúar. Einhverjir hafa lengri uppsagnarfrest. Við höfum ekki fengið upplýsingar um hvernig þetta er hugsað frá fyrirtækinu.“

Um þrjátíu manns missa vinnuna við lokunina. Þeim býðst að flytja sig á aðrar starfsstöðvar Síldarvinnslunnar, í Neskaupstað eða Grindavík. „Ég hitti engan þarna sem á þessari stundu íhugar að færa sig um set. Fólkið sem talaði lagði áherslu á að það ætti heima í Seyðisfirði, byggi í því samfélagi og vildi vera þar.

Sumt fólk hafði áhyggjur af því að það er í leiguhúsnæði hjá fyrirtækinu. Húsaleigulög gilda um leigusamninga og þar er uppsagnarfresturinn að minnsta kosti sex mánuði.“

Af hálfu Síldarvinnslunnar hefur einnig verið heitið að koma að aðgerðum sem milda höggið á atvinnulífið á Seyðisfirði, meðal annars í samvinnu við AFL. Hjördís Þóra segir að fyrirtækið hafi ekki enn haft samband við félagið vegna þess.

„Við vitum ekki til hvers er vísað í þessum styrkjum. Á Seyðisfirði er öflug ferðaþjónusta en hún er mest yfir sumarstímann. Þetta er því erfiður tími fyrir fólkið til að skipta um vinnu í núverandi umhverfi. Það tekur tíma að byggja upp nýja atvinnu.“