Starfshópur númer tvö skal finna lausn á húsnæðisvanda Tónlistarskólans á Egilsstöðum
Nýr starfshópur sem skal hafa það verkefni að leita lausna á bráðum húsnæðisvanda Tónlistarskólans á Egilsstöðum hefur til 30. júní næstkomandi til að skila niðurstöðum sínum.
Ákveðið var að setja sérstakan starfshóp vegna þessa á laggirnar fyrir nokkru í kjölfar ábendinga skólastjóra skólans, Sóleyjar Þrastardóttur, seint á síðasta ári.
Í bréfi til sveitarfélagsins benti hún á að nýtt húsnæði undir starfsemi skólans væri alls ekki á blaði í nýrri fjárfestingaráætlun Múlaþings til næstu tíu ára. Það þrátt fyrir að hafa verið þar til staðar í fyrri tíu ára áætlun. Fór skólastjórinn fram á að nýbygging fyrir skólann, Frístund og Nýjung færi aftur inn í langtímaáætlunina enda væri ekki vanþörf á.
Húsnæðisvandi skólans hreint ekki nýr af nálinni og nýskipaður starfshópurinn ekki sá fyrsti sem leggst yfir málið. Annar starfshópur um sama efni komst að þeirri niðurstöðu, og kynnti fyrir þáverandi sveitarstjórn árið 2019, að farsæl lausn til framtíðar gæti verið að reisa nýja viðbyggingu við enda austurálmu Egilsstaðaskóla Með slíku yrði jafnframt að stórum hluta brugðist við húsnæðisvanda Egilsstaðaskóla sjálfs sem er þéttsetinn mjög.
Viðbyggingin var í kjölfarið sett inn í langtímaáætlun þáverandi sveitarfélags en er þar ekki lengur þó húsnæðisvandi Tónlistarskólans sé síst betri nú en fyrir sex árum síðan. Fjölgað hefur í skólanum jafnt og þétt frá þeim tíma og reyndar hafa aldrei fleiri sótt sér tónlistarþekkingu í skólanum en á yfirstandandi ári.
Aðstaða Tónlistarskólans á Egilsstöðum í skólahúsnæði Egilsstaðaskóla er ekki með besta móti en nýr starfshópur skal reyna að leita lausna á þeim vanda. Mynd Tónlistarskólinn á Egilsstöðum