Skip to main content

Starfshópur skal meta framtíðarskipan íþróttahúss á Eskifirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. jún 2025 13:59Uppfært 02. jún 2025 14:11

Sérstakur starfshópur sem skal leggja fram tillögur um framtíðarskipan íþróttahúss á Eskifirði er að taka til starfa hjá Fjarðabyggð. Hópurinn skal koma með tillögur þar að lútandi sem taka mið af hagkvæmni og notkunarþörfina í bænum fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf til framtíðar.

Málefni íþróttahússins á Eskifirði hafa mjög verið í brennidepli í bæjarfélagi síðustu ár en því var lokað vegna myglu fyrir tveimur árum síðan með tilheyrandi verulegum vandræðum fyrir bæði skóla- og íþróttastarf allt. Hefur þetta síðan verið á forgangslista Fjarðabyggðar og fram hafa komið hugmyndir frá einkaaðilum um byggingu nýs íþróttahúss frá grunni.

Í hópnum sitja fulltrúar frá Fjarðabyggð auk fulltrúa ungmennafélagsins Austra og aðila úr íbúasamtökum Eskifjarðar og hefur teymið heimild til að kalla til sín gesti og sérfræðinga eftir atvikum.

Verkefni hópsins eru að vinna stöðumat á nýtingu og rekstri íþróttahúss á staðnum að teknu tilliti til þarfa leik- og grunnskólans og íþrótta- og æskulýðsstarfs alls. Það mat skal taka tillit til eftirspurnar almennt en ekki síður framboðs annarrar íþróttaaðstöðu í sveitarfélaginu sem hugsanlega væri hægt að nýta.

Hópurinn skal og leggja til úrbætur eða koma fram með hugmyndir um hönnun nýs íþróttahúss, aðkomu og ytra umhverfi þess mannvirkis ásamt skipulagi húsnæðisins sjálfs. Þá skal og bera saman valkosti þess að endurgera núverandi íþróttahús ellegar byggja nýtt og leggja fram kostnaðartölur þar að lútandi.

Íþróttahúsið á Eskifirði er nokkuð barn síns tíma en hvort það borgar sig frekar að fara í miklar endurbætur á því eða beinlínis byggja nýtt hús er verkefni nýs starfshóps Fjarðabyggðar.