Starfslok Eiríks gætu kostað Fljótsdalshérað allt að 15 milljónir

Starfslok Eiríks Bj. Björgvinssonar  fráfarandi bæjarstjóra gætu kostað bæjarsjóð Fljótsdalshéraðs allt að 15 miljónir króna samkvæmt ráðningarsamningi hans.  Laun Eiríks með launatengdum gjöldum námu, samkvæmt samningnum 1,9 miljónum á mánuði, um síðustu mánaðarmót.

baejarskrifstofur_egilsstodum_3.jpgSamkvæmt ráðningarsamningi Eiríks námu laun hans við upphaf samningstímans 1. júní 2006, föst mánaðarlaun tæpum 600 þúsund og yfirvinna rúm 300 þúsund, alls um 900 þúsund krónum tæpum að viðbættum föstum aksturskostnaði upp á 900 kílómetra á mánuði, 40 þúsundum í húsaleigu fyrir vinnuaðstöðu á heimili hans og fasta dagpeninga sem nema fjögurra sólahringa greiðslu á mánuði.

Samkvæmt uppreiknuðum samningnum með verðbótum  hafa launin hækkað um tæp 24% á samningstímanum og nema í dag um tæplega 1,2 miljónum á mánuði þar af rúmlega 770 þúsundum í föst mánaðarlaun og rúmlega 400 þúsundum fyrir yfirvinnu.  Auk þess hefur hann, samkvæmt samningnum,  uppreiknað til síðustu mánaðarmóta, dagpeninga rúmlega 95 þúsund á mánuði, húsaleigu tæp 64 þúsund á mánuði og fastan aksturskostnað upp á tæp 90 þúsnd á mánuði.

Alls gerir þetta rúmlega 1,4 miljónir á mánuði sem að viðbættum launatengdum gjöldum upp á tæp 500 þúsund gerir um 1,9 miljónir á mánuði í samtals heildarlaunagreiðslur vegna Eiríks á mánuði, útborguð laun eru því væntanlega rúm 920 þúsund á mánuði.

Í ráðningarsamningnum eru ákvæði um að komi ekki til endurráðningar Eiríks sem nú er orðin raunin, „greiðast honum biðlaun í sex mánuði eftir að fráfarandi bæjarstjórn lætur af störfum auk þess sem bæjarstjóri skuldbindur sig til að vinna allt að þremur mánuðum með nýrri bæjarstjórn, verði eftir því leitað enda framlengist biðlaunatíminn sem því nemur“, eins og segir í samningnum. Inni í þessum biðlauna rétti eru föst laun, yfirvinna, dagpeningar og húsaleiga, aðeins fastur aksturskostnaður upp á 900 kílómetra fellur niður.

Samkvæmt þessu má lauslega áætla að heildarkostnaður Fljótsdalshéraðs vegna starfsloka Eiríks nemi allt að að 15 miljónum króna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.