Starfsmaður hafði fullnaðarsigur í kjaradeilu gegn byggingaverktaka
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 08. apr 2025 17:10 • Uppfært 08. apr 2025 17:11
Byggingafyrirtækið Reisugil hefur verið dæmt til að greiða fyrrum starfsmanni sínum meira en eina milljón króna í vangreidd laun. Dómurinn féllst að öllu leyti á málatilbúnað mannsins.
Það var AFL Starfsgreinafélag sem höfðaði málið fyrir hönd mannsins. Grunnurinn að deilunum var um hvort maðurinn hefði verið ráðinn í fullt starf frá félaginu frá október 2022 eða aðeins tilfallandi. Tímaskráningar mannsins báru með sér að hann hefði frá upphafi unnið fulla vinnu.
Enginn skriflegur samningur var til staðar en tímakaupið í byrjun var óumdeilt, 2.500 krónur á tímann í dagvinnu og 4.500 krónur á tímann í yfirvinnu. Eftir að maðurinn hóf störf var gerður nýr kjarasamningur og var ágreiningur um hvort kaupið hefði átt að breytast í takt við hann meðal þess sem deilt var um.
Forsvarsmaður fyrirtækisins hélt því fram að starfsmaðurinn hefði falast eftir svartri vinnu, eins mikilli og í boði væri. AFL starfsgreinafélag, sem aðstoðaði manninn vil að leita réttar síns, sagði að það breyttu engu um lögboðið tímakaup. Niðurstaða dómsins var að ekki væri hægt að semja um kjör undir kjarasamningum.
Samfella í störfum mannsins styddi frásögn hans um að full vinna hefði staðið til boða en hann skráði niður vinnutíma sína. Eins var hann skráður í fulla vinnu í tímaskráningarforrit fyrirtækisins þótt forsvarsmaður þess héldi því fram að aðeins hefði verið í boði tilfallandi vinna. Fyrirtækið gaf engar skýringar á þeirri skráningu.
Reisugil gaf aldrei út launaseðla en greitt var inn á manninn annað slagið þá fjóra mánuði sem hann starfaði fyrir félagið. Þeir voru hærri en það sem greitt var og ekki í samræmi við tímaskráningu. Losarabragur var einnig á greiðslum launatengdra gjalda. Ágreiningslaust var þó hve mikið starfsmaðurinn hefði fengið greitt.
Viðbótargögn bárust aldrei
Við málareksturinn boðaði forsvarsmaður Reisugils ítrekað frekari gögn máli sínu til stuðnings, meðal annars leiðréttum launaseðlum. Ekkert bólaði á þeim. Þvert á móti sagði sá lögmaður sem rak málið fyrir fyrirtækið sig frá því í maí í fyrra. Meðferð málsins var frestað meðan Reisugil gæti ráðið sér annan lögmann. Það gerðist aldrei.
Forsvarsmaður fyrirtækisins tók því sjálfur til varna sem ólöglærður einstaklingur. Það breytti engu um gagnaskilin og var að lokum dæmt út frá skriflegum gögnum eftir að ljóst varð að forsvarsmaðurinn ætlaði sér ekki að mæta til aðalmeðferðar.
Var það niðurstaða dómsins að Reisugil bæri allan halla af því að hafa ekki gert ráðningarsamning, leitt fram vitni eða lagt fram önnur gögn máli sínu til stuðnings né á nokkurn hátt hnekkt málflutningi starfsmannsins.
Fyrirtækið var að lokum dæmt til að greiða starfsmanninum 1,8 milljónir króna auk vaxta. Frá því dragast 860 þúsund sem áður höfðu verið greiddar. Þá þarf Reisugil að borga málskostnað upp á 1,4 milljónir króna. Fleiri mál gegn fyrirtækinu eru á dagskrá Héraðsdóms Austurlands um þessar mundir.