Stefna á að ná að slátra á fimmta þúsund tonna fyrir áramót
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 14. des 2023 10:12 • Uppfært 14. des 2023 13:21
Fyrstu löxunum á þessu ári var slátrað hjá Búlandstindi á Djúpavogi um mánaðamótin september/október. Hlé var á henni þangað til eftir að blóðþorraveira kom upp í tveimur fjörðum í fyrra. Aðstoðarframkvæmdastjóri Fiskeldis Austfjarða segir ráðstafanir vera komnar þannig að ólíklegt sé að hún komi upp aftur.
„Við fórum af stað um mánaðamótin september/október og stefnum á að slátra 4-5.000 tonnum fyrir áramót,“ segir Jens Garðar Helgason, aðstoðarframkvæmdastjóri Fiskeldis Austfjarða.
Eftir að veiran kom upp í Reyðarfirði og Berufirði í fyrra varð að slátra öllum laxi sem þá var í eldi. Því var lokið um síðustu áramót. Þrátt fyrir verkefnaleysi var ákveðið að halda öllu starfsfólki í bæði eldinu og sláturhúsinu. Tíminn á meðan var nýttur í aukið viðhald.
Fiskurinn sem nú er verið að slátra kemur úr Fáskrúðsfirði, sem slapp við veiruna og lítur að sögn Jens Garðars mjög vel út.
Hvíla þurfti eldissvæðin í ákveðinn tíma áður en nota mátti þau á ný. Sá tími var liðinn í sumar og eru eldissvæðin öll komin í rekstur á ný. „Eldið gengið vel. Við höfum náð að byggja upp góðan vöxt eftir áfallið og stefnum á að slátra yfir 20.000 löxum á næsta ári.“
Bólusetning og sóttvarnasvæði
Jens Garðar segir búið að grípa til aðgerða sem eiga að koma í veg fyrir að veiran komi upp aftur, hvað þá að hún nái útbreiðslu. „Veiran lifir ekki lengi af án hýsils þannig svæðin eru hrein. Það var allt sótthreinsað, skipt um nætur í kvíunum og svo framveigs.
Við höfum breytt öllu framleiðsluferlinu þannig það eigi að vera eldveggir milli framleiðslusvæða. Við erum þegar búin að innleiða smitvarnasvæði eins og lagt er til í drögum matvælaráðuneytisins að nýjum lögum.
Við hófum bólusetningu um leið og leyfi til þess fékkst. Af þeirri kynslóð sem nú er í sjó er 60% bólusætt. Kynslóðin sem verður sett út næsta vor og aðrar á eftir henni verða bólusettar að fullu. Bólusetningin minnkar líkur á sýkingu um 70-80%.
Í Fáskrúðsfirði og Berufirði verður bara ein kynslóð í eldi í einu. Á Reyðarfirði er það langt milli stöðva að við getum verið með eina kynslóð í stöðinni úti við Vattarnes og aðrar á þeim sem innar eru. Þetta uppfyllir Evrópureglur.
Síðan er strangar reglur um umferð báta, búnaðar og mannskaps milli stöðva. Við erum því búin að gera það sem hægt er til að koma í veg fyrir að veiran komi upp aftur. Ef hún kemur upp þá dreifist hún ekki.“