Skip to main content

Stefnan að gera bókasafnið að miðpunkti Safnahússins á Egilsstöðum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. jún 2023 14:17Uppfært 02. jún 2023 14:18

Undirbúningur er formlega hafinn að því að hanna og byggja aðra álmu Safnahússins á Egilsstöðum en þar er hugmyndin að gera bókasafnið að miðpunkti hússins en það hefur verið staðsett á þriðju og efstu hæð.

Sérstök byggingarnefnd vegna verkefnisins hefur fundað tvívegis að undanförnu til að leggja línurnar með framhaldið en upphaflega var ráðgert að þrjár álmur yrðu í húsinu og það því annar áfangi sem nú er að fara í gang að sögn Stefáns Boga Sveinssonar, Héraðsskjalavarðar og fulltrúa Safnahússins í bygginganefndinni.

„Þetta hefur alltaf verið hluti af sérstöku menningarverkefni og snemma ákveðið að áfangaskipta verkinu og klára endurbyggingu Sláturhússins áður en farið væri í næsta hluta Safnahússins. Húsið var upphaflega hannað þannig að núverandi húsnæði væri aðeins fyrsti áfanginn. Húsið er nú á þremur hæðum en í upphafi var jafnframt byggð neðsta hæðin undir næsta áfanga. Það á sem sagt nú að byggja tvær hæðir ofan á þann hluta.“

Meginhugmynd þeirra sem að koma er að eftir að viðbyggingin er risin þá verði bókasafninu gert hærra undir höfði  en verið hefur og það verði nokkurs konar miðpunktur hússins enda það safn sem flesta dregur til sín dags daglega.

„Í kjölfarið verður söfnunum hér breytt en mismikið þó. Það er gert ráð fyrir að þetta hafi mest áhrif á bókasafnið sem fær alveg nýtt rými miðsvæðis í húsinu. Það breytist ekki mikið hvað Skjalasafnið varðar en það rýmkar eitthvað um Minjasafnið miðað við hugmyndirnar. Aðaláherslan verður á bókasafnið því það er mest dagleg umferð um þann safnahluta og gaman að geta komið því þannig fyrir að það sé um það bil í miðju hússins.“

Stefán Bogi segir að nú þegar sé til fjármagn til hönnunarvinnu og hugmyndin sé að reyna að gera allt klárt til útboðs svo framkvæmdir geti vonandi hafist strax á næsta ári. Nýtt og betra Safnahús gæti því hugsanlega opnað fyrir gestum 2025 eða svo.