Skip to main content

Stefnt á að ljúka endurbótum á Fjarðarborg í lok ársins

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 26. maí 2025 14:48Uppfært 26. maí 2025 15:02

Þessi dægrin er verið að leggja lokahönd á endurbætur efri hæðar félagsheimilisins Fjarðarborgar á Borgarfirði eystri en stefnan er að ljúka endurbótum að fullu fyrir árslok.

Um eitt og hálft ár er liðið síðan endubætur hófust á þessu merka félagsheimili og þær gengið eftir atvikum vel. Hefur þó eitt og annað ófyrirséð komið í ljós við framkvæmdirnar eins og oft er raunin þegar endurbætur fara fram í gömum húsum.

Takast mun að ljúka efri hæðinni að fullu nú á næstu dögum samkvæmt því er fram kom á fundi heimastjórnar Borgarfjarðar eystri með Vordísi Jónsdóttur, verkefnastjóra hjá Múlaþingi og Jóni Grétari Traustasyni sem er byggingarstjóri hússins. Þar með talin salerni, eldhúskrókur, allt gólfefni auk stiga. Þá verður og ný lyfta komin í gagnið fljótlega.

Það sem eftir stendur er þá að klæða húsið að utan að fullu en haldið verður áfram með það verk í sumar. Með haustinu skal svo flísaleggja forstofuna á neðri hæð, taka salerni í gegn, nýir gluggar settir í sal og loftræstikerfi sett upp.

Þar með á formlegum endurbótum að ljúka en áfram verður verk að vinna því síðasta sumar flæddi inn í kjallara hússins. Til að bregðast við þeim leka þarf að drena utanhúss áður en farið verður í viðgerðir. Það verk er ekki hluti af endurnýjunarferli hússins og þarf því að fara inn á viðhaldsáætlun Múlaþings.