Steini Bergs: Það hefur komist í tísku að best sé að við ráðum okkur ekki sjálf

steini_bergs_xj_me13.jpg
Taka þarf upp samninginn um EES upp á nýtt til að færa stjórnina á íslenskum efnahag aftur í hendur íslenskra stjórnvalda. Uppbygging atvinnu snýst um að hagnaðurinn renni ekki úr landi.
 
„Með því að ljúga því sama nógu oft er hægt að trúa því, einkum ef það kemst í tísku. Meðal þess sem hefur komist í tísku er að það sé best að við ráðum okkur ekki sjálf,“ sagði Þorsteinn Bergsson frá Regnboganum á opnum framboðsfundi í Menntaskólanum á Egilsstöðum fyrir skemmstu.

Þorsteinn sagði að taka yrði samninginn um evrópska efnahagssvæðið (EES) upp á nýtt meðal annars til að setja hömlur á fjórfrelsið sem í hann er bundið: frjálst flæði vöru, fjármagns, fólks og þjónustu.

Hann sagði „mútufé“ streyma inn í landið í tengslum við aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið. Um aðildina kjósi þjóðin þegar „Evrópusambandinu hentar og þá verðum við líklega komin í gegnum aðlögun að öllu leyti nema nafninu til. Uppbygging atvinnu snýst um að hagnaðurinn renni ekki úr landi, ekki því að fá lánaða peninga í stórum stíl til að byggja upp.“

Ég set stór spurningamerki við að erlend fjárfesting sé aðalatvinnutækifærið. Framleiðslutækin eiga að vera í okkar eigu en ekki annarra. Ég hef ekki orðið var við að það séu neinir peningar á leið inn í landið.

Þorsteinn sagðist fylgjandi því að framboð leiguíbúða yrði aukið og til þess verði Íbúðalánasjóður notaður. „Þar þarf að setja menn í stjórn sem bólusettir eru gagnvart markaðshyggju.“

Þorsteinn talaði til nemenda í menntaskólanum. „Þið unga fólkið eruð mest skapandi. Reynsla er steingeld vanhugsun sem hjálpar manni ekki hætis hót.“

Hann sagði Regnbogahreyfinguna vera tilbúna að skoða niðurfellingu námslána ef viðkomandi ljúki námi. Hann varaði samt við misnotkun á kerfinu. „Við höfum verið lunkin við að nýta kerfi á annan hátt en ætlast er til.“

Aðspurður sagðist Þorsteinn ekki fylgjandi því að þingmönnum yrði bannað að sitja hjá við atkvæðagreiðslu. „Nei,“ sagði hann og bætti andartaki síðar við: „Það verður að vera hægt að sitja hjá. Ég treysti mér ekki til að hafa skoðun á öllu þótt ég hafi skoðun á mörgu.“


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.