Skip to main content

Sterkur áhugi á skemmtisiglingum til Íslands þrátt fyrir ný innviðagjöld

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. maí 2025 14:53Uppfært 27. maí 2025 14:54

Tveir aðilar úr yfirstjórn Múlaþings sóttu stærstu skemmtiferðaskiparáðstefnu heims sem fram fór í Miami í Bandaríkjunum nýverið. Þar áttu þeir samtöl við fulltrúa skemmtiferðaskipafyrirtækja sem þrátt fyrir að lýsa yfir áhyggjum af auknum gjaldtökum ríkisins sýna því áhuga að fjölga skipaferðum hingað til lands.

Þetta kom fram í máli sveitarstjóra Múlaþings, Dagmar Ýr Stefánsdóttur, á síðasta sveitarstjórnarfundi en hún var ein þeirra sem sóttu umrædda ráðstefnu í Miami.

Áhyggjur Múlaþings, líkt og annarra sveitarfélaga sem taka mót skemmtiferðaskipum, snúa að því hversu alvarleg áhrif ný gjöld á hvern skipafarþega geta haft á komur skipanna hingað til lands. Frá og með áramótum þurfa skipafélögin að greiða 2.500 krónur per farþega per nótt fyrir hvern byrjaðan sólarhring innan tollsvæðis Íslands.

Í máli Dagmarar kom fram ótti við að skipafyrirtækin myndu í kjölfarið draga úr komum sínum hingað til lands vegna gjaldsins sem sett var á með tiltölulega skömmum fyrirvara.

„Á sama tíma og við skynjum áhyggjur skipafélaganna af gjaldinu og þá sérstaklega aðferðarfræðinni við hvernig því var komið á þá áttum við samt marga jákvæða fundi og ljóst að mikill áhugi er á Íslandi og við vonumst til að nýir aðilar gætu bæst við hóp þeirra sem eru að heimsækja okkur hér á Austurlandi. Þessa dagana fara fram undirbúningsfundir á vegum hafnarstarfsmanna á Seyðisfirði, Djúpavogi og Borgarfirði með hagsmunaaðilum skemmtiferðaskipakoma. Þar er sumarið framundan kortlagt og tryggt að allir aðilar séu vel undirbúnir.“