Skip to main content

Stikuðu slóða frá Kárahnjúkavegi og langt að Brúarjökli

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 26. sep 2023 16:04Uppfært 26. sep 2023 16:07

Félagar í austanlandsdeild Ferðaklúbbsins 4x4 stikuðu í sumar leiðina frá Kárahnjúkavegi alla leið að Snæfellsskála og reyndar gott betur í átt að sjálfum Brúarjökli.

Þetta gerði klúbburinn í samstarfi við bæði Vegagerðina og Vatnajökulsþjóðgarð en samstarf þessara þriggja aðila um að stika slóða á hálendi Austurlands hófst fyrr í sumar. Sannað þykir að séu hálendisslóðar stikaðir megi bæði draga verulega úr utanvegarakstri en ekki síður stórauka öryggi ferðafólks þegar færð eða veður eru miður góð.

Að sögn Jóns Garðars Helgasonar, hjá Ferðaklúbbnum, komst þetta samstarf á í kjölfar þess að nokkrir félagar í klúbbnum héldu upp á hálendið síðasta sumar til að lagfæra eins og hægt var djúp hjólför utanvega á stóru svæði á Kverkfjallaleið.

„Þannig hófst þetta eiginlega og við svona verið í sambandi við þjóðgarðinn síðan um að taka höndum saman og þar ekki síst til að standa gegn þessum utanvegaakstri. Vegagerðin aðstoðar líka mikið með því að leggja okkur til stikurnar.“

Alls voru settar niður 250 vegstikur á þessari vinsælu leið að Snæfellsskála að þessu sinni og segir Jón Garðar að hugmyndin sé að halda þessu samstarfi áfram næsta sumar.

„Það er allra hagur að stika sem flestar leiðir og vonandi með þeim hætti minnka skemmdir á náttúrunni með akstri utan vega eða slóða. Svo er þetta töluvert öryggisatriði líka sé fólk á ferð að vetralagi til dæmis eða í slæmu veðri eða skyggni.“

Hluti klúbbfélaga að merkja slóðann fyrr í sumar en allir aðilar sammála um að halda þessu áfram næsta sumar hið minnsta. Mynd Vatnajökulsþjóðgarður