Stillt upp á lista Framsóknarflokksins í Múlaþingi
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 14. feb 2022 09:47 • Uppfært 14. feb 2022 09:47
Framsóknarfélag Múlaþings hefur falið uppstillingarnefnd að gera tillögu að framboðslista félagsins fyrir sveitarstjórnakosningarnar þann 14. maí.
Ellefu manna uppstillingarnefnd var kosin á fundi í lok janúar. Formaður nefndarinnar er Stefán Bogi Sveinsson en sérstakur framkvæmdahópur skipaður þremur erindrekum: Eygló Björgu Jóhannsdóttur, Kristjönu Björnsdóttur og Þorvaldi P. Hjarðar, heldur utan um vinnu við uppstillinguna milli funda nefndarinnar.
Þegar tillaga uppstillingarnefndar liggur fyrir mun verða boðað til félagsfundar þar sem framboðslistinn verður borinn upp til samþykktar.
Listinn fékk tvo fulltrúa kjörna í síðustu kosningum, þá Stefán Boga Sveinsson og Vilhjálm Jónsson. Stefán Bogi hefur lýst því yfir að hann gefi ekki kost á sér áfram. Í síðustu viku gaf Jónína Brynjólfsdóttir, varabæjarfulltrúi, það út að hún vildi leiða listann.