Stjórnendur Samkaupa til fundar um verslunarmál í Neskaupstað
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 08. feb 2024 10:47 • Uppfært 08. feb 2024 10:48
Opinn íbúafundur um málefni dagvöruverslunar í Neskaupstað verður haldinn í Egilsbúð í kvöld. Stjórnendur Samkaupa, sem reka Kjörbúðina, sitja þar fyrir svörum.
Fundurinn er svar við ákalli íbúa í bænum. Um 400 manns skrifuðu nafn sitt á undirskriftalista fyrir jól þar sem óskað var eftir samræðum um fyrirkomulag verslunar í bænum.
„Það er ekkert leyndarmál að það er ákveðin óánægja með fyrst og síðast vöruverðið. Þess vegna viljum við kanna hvort möguleiki sé að fá ódýrari verslun. Við vitum að talsvert af fólki fer héðan til að versla í lágvöruverslunum í kringum okkur,“ sagði Guðröður Hákonarson, forsvarsmaður undirskriftasöfnunarinnar.
Þrír stjórnendur Samkaupa mæta til fundarins í kvöld sem hefst í Egilsbúð klukkan 20:00.
Samkaup rekur einnig verslanir undir merkjum Kjörbúðarinnar á Djúpavogi, Eskifirði, Fáskrúðsfirði og Seyðisfirði auk Nettó á Egilsstöðum.