Stöðfirðingar íhuga að kaupa sjálfir tjaldsvæði bæjarins
Íbúasamtök Stöðvarfjarðar hafa skoðað þann möguleika að fjárfesta sjálf í tjaldsvæði bæjarins en sem kunnugt er ákvað Fjarðabyggð að setja öll tjaldsvæði sveitarfélagsins á sölu fyrir nokkru.
Þetta staðfestir Bjarni Stefán Vilhjálmsson, einn forsprakka samtakanna en hann segir jafnframt að þær hugmyndir sem unnið hefur verið að undanfarin misseri og varða að flytja tjaldsvæði Stöðfirðinga, sem stendur við austurenda byggðarinnar, á fótboltasvæði bæjarins hafi í dáið drottni sínum þegar ljóst varð að sveitarfélagið hygðist selja öll sín tjaldsvæði.
„Við ræddum þetta nokkuð ítarlega á íbúafundi hér í byrjun maí enda þá nýkomið í ljós að Fjarðabyggð ætlaði að selja svæðin. Þar með má segja að þessar hugmyndir okkar að færa tjaldsvæðið á fótboltavöllinn hafi runnið út í sandinn og flestir á því að halda tjaldsvæðinu á sínum sama stað áfram. Meginástæðan auðvitað sá mikli kostnaður sem þarf að fara út í ef byggja þarf upp nýtt tjaldsvæði með tilheyrandi þjónustu og mönum og slíku. Það er öllum ljóst að sveitarfélagið er auðvitað ekki að fara að leggja fjármagn í uppbyggingu nýs tjaldsvæðis meðan hugmyndin er að losa sig við þau öll.“
Eftir því sem Austurfrétt kemst næst er ekki búið að auglýsa tjaldsvæði Fjarðabyggðar formlega enn sem komið er en Bjarni Stefán telur ekki líklegt að tjaldsvæðið kosti nein ósköp þegar þar að kemur. Þar séu einfaldlega ekki mikil verðmæti og ekki útilokað að heimamenn sjálfir falist eftir svæðinu þegar að því kemur.