Skip to main content

Stöðfirðingar ítreka óskir um lagfæringar í bænum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 26. júl 2023 10:44Uppfært 26. júl 2023 13:31

Íbúasamtök Stöðvarfjarðar hafa ítrekað tæplega ársgamalt erindi til sveitarstjórnar Fjarðabyggðar um nokkur brýn verkefni sem setið hafa of lengi á hakanum að þeirra mati.

Fyrra bréfið barst bæjarráði Fjarðabyggðar í ágúst í fyrra en þar tíunduðu íbúasamtökin sex smærri verkefni sem vanrækt hafi verið allt of lengi og þar hvatt til þess að þau verkefni yrðu eyrnamerkt í framkvæmdaáætlun sveitarfélagsins á næstu tveimur til þremur árum.

Í nýju bréfi samtakanna er krafan um lagfæringar ítrekuð og á það bent að nú, ári eftir fyrri beiðni, hafi aðeins eitt verkefnið af sex alls komist á koppinn. Meira þurfi þó til:

„Það er búið að framkvæma eitt verk á þessum lista. Sem er vel, en betur má ef duga skal og allt það. Við viljum lýsa yfir miklum vonbrigðum með með að það sé ekki búið að klára gangstéttirnar á Fjarðarbrautinni. Þetta er eini vegurinn innanbæjar í Fjarðabyggð sem er þjóðvegur og hugsanlega einn umferðarmesti vegurinn innanbæjar ásamt því að allir þungaflutningar fara um Fjarðarbraut. Og það má segja að það sé skammarlegt að það hafi verið malbikaðir stígar í Fjarðabyggð sem liggja ekki meðfram götum á meðan þetta hefur setið á hakanum.“