Skip to main content

Stöðfirðingar leita sinna eigin leiða til að bæta netsamband í bænum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 08. sep 2023 09:21Uppfært 08. sep 2023 09:23

Hingað til hefur ekkert fjarskiptafyrirtæki sýnt því áhuga að koma á ljósleiðarasambandi í Stöðvarfirði sökum fámennis. Íbúarnir sjálfir leita nú allra leiða til að bæta úr því.

Íbúafundur var haldinn í bænum í vikunni í tilefni þess að eitt ár er liðið síðan Stöðvarfjörður hóf þátttöku í byggðaverkefninu Brothættar byggðir undir heitinu Sterkur Stöðvarfjörður en þar gafst íbúum færi á að tjá sig um það sem gengið hefur á síðan þá.

Að sögn Valborgar Aspar Á. Warén, verkefnisstjóra, fór fundurinn vel fram og íbúar óhræddir að ræða málin sín á milli. Þó eitt og annað hafi tekist vel síðan verkefnið hófst og margt komist á koppinn af þeim fjölda hugmynda sem fyrst komu fram um hvernig bæta mætti bæjarhag segir Valborg að tvennt sérstaklega sé að valda heimafólki hugarangri.

„Þarna fórum við yfir fyrsta árið og hvernig hefði gengið vel. Hvaða verkefni væru í vinnslu og hverjum væri lokið. Við skiptum okkur í fjóra mismunandi hópa sem fóru yfir markmið verkefnisins og hvernig hefði gengið svona heilt yfir.“

Þau tvö mál sem stóðu heimafólki næst og fengu mesta umfjöllun á fundinum voru annars vegar lélegt netsamband í firðinum og hins vegar hvort og hvenær bæjarbúar fengju verslun að nýju en eina verslunin á Stöðvarfirði var seld í janúarmánuði og enn liggur ekki ljóst fyrir hvort sú verður opnuð að nýju.

„Við höfum verið að nýta allt sumarið í að tala við Mílu, Austurljós og slíka aðila varðandi bætt fjarskiptasamband og svona kannað hvað við getum gert í stöðunni þegar einkageirinn sýnir okkur engan áhuga. Okkur sýnist öllum að íbúarnir verði að gera eitthvað sjálfir til að bæta þar úr miðað við svör fyrirtækjanna og við verið að kanna möguleikana í því.“

Sem dæmi um hve netsamband í firðinum sé slæmt segir Valborg, sem er með vinnuaðstöðu á ágætum stað í Sköpunarmiðstöðinni, að algjör hending sé ef henni tekst að klára netfundi gegnum Teams vandræðalaust.

Hitt sem truflar íbúa mikið er missir einu verslunar bæjarins en verslunin Brekkan var seld utanaðkomandi aðila í byrjun ársins og þar er enn lokað þó kaupendur hafi í vor fengið sérstakan styrk til að halda úti verslun. Þurfa íbúar Stöðvarfjarðar nú annaðhvort að aka hálfa klukkustund til Fáskrúðsfjarðar ellegar 20 mínútur til Breiðdalsvíkur til að kaupa nauðsynjar.

„Auðvitað skipti máli að þurfa ekki að fara langar leiðir eftir nauðsynjum,“ segir Valborg. „En verslunin hér var líka töluvert mikilvægari en að vera bara verslun. Þetta var eiginlega félagsmiðstöð fyrir íbúa líka.“