Stöðug aukin notkun á Norðfjarðarflugvelli eftir malbikun flugbrautar

Notkun á Norðfjarðarflugvelli eftir að flugbrautin þar var malbikuð sumarið 2017 hefur aukist jafnt og þétt. Bæjarfulltrúar í Fjarðabyggð telja mikilvægt að áfram verði staðinn vörður um völlinn.

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar staðfesti á síðasta fundi sínum endurnýjun þjónustusamning við Isavia vegna vallarins. Sveitarfélagið sér um daglegan rekstur og umhirðu hans gegn greiðslu.

Kaflaskil urðu í sögu vallarins þegar flugbrautin var malbikuð sumarið 2017. Þar áður var aðeins malarbraut sem oft var til vandræða, einkum í vætutíð. Það var átaksverkefni sem ráðist var í með fjárstuðningi fyrirtækja í Fjarðabyggð.

„Við erum heppin að hafa öflug fyrirtæki sem hafa gert það sem þau geta til að tryggja tilvist þessarar flugvalar. Það hefur skilað sér. Það er gríðarlega mikilvægt að við stöndum vörð um flugvöllinn sem er til dæmis gríðarlega mikilvægur fyrir áframhaldandi rekstur sjúkrahússins,“ sagði Stefán Þór Eysteinsson, oddviti Fjarðalistans.

Norðfjarðarvöllur er fyrst og fremst notaður undir sjúkraflug í tengslum við Umdæmissjúkrahús Austurlands í Neskaupstað. Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðs, benti á að þeim hefði fjölgað með bættri aðstöðu, úr 28 árið 2019 upp í tæplega 100 í fyrra.

„Þessi aukning endurspeglar það öryggishlutverk sem flugvöllurinn gegnir og er jafnframt staðfesting á að þær endurbætur sem varið var í á flugvellinum hafa skapað tækifæri til að nýta hann betri. Það er mikilvægt að halda áfram á þeirri vegferð,“ sagði hann.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.