Skip to main content

Stöðug umferð síldveiðiskipa á Vopnafirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. sep 2025 14:19Uppfært 19. sep 2025 14:20

Stanslaus umferð skipa hefur verið um Vopnafjarðarhöfn síðustu daga. Um tíma lágu þrjú uppsjávarveiðiskip Brims þar við bryggju í einu og fyrir hefur komið að þau mætast í firðinum á inn- og útleið.


Venus NS og Víkingur AK hafa landað síld til skiptis á Vopnafirði síðustu daga. Venus kom inn á sunnudag með 1.200 tonn. Skipið beið síðan inni fram á miðvikudag þegar Víkingur kom inn til löndunar. Skipin mættust í höfninni.

Í gær var lokið við að landa 930 tonnum úr Víkingi. Venus kom síðan inn í nótt með 745 tonn. „Við stillum það af eftir vinnslunni hvenær skipin koma inn. Þau eru að koma með um 800 tonn að jafnaði og það tekur okkur um 1,5 sólarhring að vinna það,“ segir Þorgrímur Kjartansson, vinnslustjóri Brims á Vopnafirði.

Síldveiðarnar hófust í lok ágúst úti fyrir Héraðsflóa en hafa nú færst ögn sunnar. Um 4-6 tíma tekur að sigla til og frá miðunum og aflinn fæst að meðaltali í þremur köstum. Þorgrímur segir að veiðin sé almennt góð en síldin sé nokkuð blönduð, af annars vegar íslenskri síld og hins vegar norsk-íslenskri.

Í höfninni á Vopnafirði er einnig Svanur RE sem var að ljúka kolmunnaveiðum. Skipið kom til hafnar á fyrir viku með rúm 1.600 tonn eftir veiðar í Rósagarðinum. „Þetta er búið að ganga afar vel, bæði veiðar og vinnsla, hvort sem um er að ræða, makríl, kolmunna eða síld,“ segir Þorgrímur.

Vinnslan á Vopnafirði var efld fyrir makrílvertíðina þegar fjórum nýjum flökunarvélum var bætt við. Þeim fjölgaði við það úr sjö í ellefu. Frystiaðstöðunni var líka breytt til að auka afköst. „Það munaði mikið um þetta á makrílvertíðinni,“ segir Þorgrímur.

Víkingur nær og Svanur fjær á Vopnafirði í gær.