Skip to main content

Stöðva framkvæmdir við Lagarfljótsbrú um mánuð vegna mistaka

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. mar 2022 09:00Uppfært 16. mar 2022 09:01

Fresta hefur þurft endurbótum á gólfi Lagarfljótsbrúar um mánaðarskeið sökum mistaka í afhendingu á þeim stálmottum sem notaðar eru á brúargólfið.

Verkinu, sem staðið hefur yfir frá nóvember og átti að ljúka í lok febrúar, er enn ekki lokið en það er sérstakur brúarvinnuflokkur Vegagerðarinnar sem séð hefur um vinnuna. Verkinu var ekki hægt að ljúka á réttum tíma þar sem röng stærð af stálmottum þeim er settar eru yfir timburgólf brúarinnar voru afhentar.

Von er á réttum plötum strax í byrjun aprílmánaðar og verður verkinu framhaldið og lokið í kjölfarið að sögn upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar.

Mottuvandræðin reyndust þó ekki alfarið slæm þegar allt kom til alls því sökum tafanna hefur brúarflokkurinn náð að lagfæra fimm aðrar smærri brýr á svæðinu hingað til.