Stór flugslysaæfing á Egilsstaðaflugvelli gekk vel að allra mati
Fjölmenn flugslysaæfing sem fram fór á Egilsstaðaflugvelli fyrr í dag gekk vel fyrir sig og voru viðbragðsaðilar sáttir með hvernig til tókst.
Æfingar sem þessar fara fram á öllum flugvöllum landsins sem sinna áætlunarflugi á þriggja til fjögurra ára fresti og þá í samvinnu Almannavarna, Isavia og allra nauðsynlegra viðbragðsaðila á hverjum stað fyrir sig. Það jafnan heilbrigðisstarfsfólk, lögregla, björgunarsveitir og slökkvilið auk þess sem aðrir leggja hönd á plóginn eins og starfsmenn viðkomandi flugvallar og jafnvel flugfélaga sem fljúga til og frá.
Veður var í kaldara lagi en bjart og fallegt þegar viðbragðsaðilar flýttu sér á staðinn þar sem ekki eingöngu þurfti að sinna stórri áætlunarvél heldur einnig lítilli einkaflugvél sem átti að hafa flogið í veg fyrir áætlunarvélina við lendingu. Það sem gerði viðbrögð flóknari en ella var að smærri vélin endaði langt utan flugbrautarinnar og hinu megin við Eyvindará sem liggur að hluta meðfram nyrsta hluta brautarinnar á Egilsstöðum. Alls þurftu 24 slasaðir einstaklingar hjálp á vettvangi.
Viðbrögð allra sem að komu voru fumlaus og góð að sögn Friðfinns Freys Guðmundssonar, verkefnastjóra neyðarviðbúnaðar hjá Isavia, en vitaskuld alltaf eitt og annað sem megi bæta eða breyta á betri veg. Það sé einmitt hugmyndin með slíkum æfingum reglulega að finna hvar eitthvað má bæta og koma því í betra horf fyrir næstu æfingu.
Bjarga þurfti slösuðu fólki úr flaki beggja véla sem brotlendu á æfingunni í dag. Til þess þurfti að rjúfa stál og ál til að komast að fólkinu og margar hendur til að koma fólkinu út eins fljótt og auðið var. Mynd AE