Skip to main content

Stór meirihluti ánægður með þjónustu Heilbrigðisstofnunar Austurlands

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 29. sep 2025 10:54Uppfært 29. sep 2025 10:57

Þjónusta öll og viðmót innan Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) fær mjög góðar einkunnir notenda þjónustunnar samkvæmt viðamikilli úttekt sem gerð var fyrr á árinu. Heildaránægjan meiri en hjá öðrum sambærilegum stofnunum.

Niðurstöður þessarar úttektar heilt yfir mjög jákvæðar fyrir stofnunina en tilgangurinn var að komast að því hvort notendur væru almennt ánægðir eða ánægðir með nokkra lykilþætti í þjónustu HSA. Var upplýsingum safnað um fjögurra mánaða skeið en framkvæmdin var í höndum fyrirtækisins Prósent. Spurt var um þjónustuna í heild, viðmót starfsfólks, áreiðanleika upplýsinga og hraða þjónustunnar.

Fyrir ofan aðrar stofnanir

HSA kom mjög vel út hvað þjónustustigið varðaði en 90% svarenda töldu það frekar eða mjög gott. Aðeins 4% sögðu hana frekar eða mjög slæma. Ánægjan meiri en hjá öðrum stofnunum þar sem meðaltalið var 83%.

Enn meiri ánægja reyndist vera með viðmót starfsfólks en 96% svarenda sögðu viðmót allt gott en aðeins 1% þeirra höfðu reynslu af slæmu viðmóti. Hér aftur reyndist ánægjustigið hærra en hjá samanburðarstofnunum þar sem 90% sögðu viðmótið gott. Hvað áreiðanleika upplýsinga varðaði hlaut HSA 4,2 stig af 5 mögulegum.

Meiri óánægja með biðtíma

Eini þátturinn þar sem vart varð meiri óánægju var biðtími eftir þjónustu en þó voru 77% á þeirri skoðun að þjónustan gengi frekar eða mjög hratt fyrir sig meðan 11% sögðu hana hæga eða mjög hæga. Jafnvel hér var HSA þó líka yfir meðallagi samanborið við aðrar stofnanir þar sem aðeins 71% töldu þjónustuna hraða. Reyndist þetta eina niðurstaðan þar sem HSA var undir því gæðamarkmiði sem stofnunin hefur sett sér.

Fram kemur í samantekt að niðurstöðurnar bendi til að þjónusta HSA sé almennt góð og svo virðist einnig að stofnunin sé á réttri leið hvað varðar aukna sérfræðiþjónustu, flýtisvörun hjúkrunarfræðinga og geðheilbrigðisteymi sitt.