Stór meirihluti telur komur skemmtiferðaskipa af hinu góða
Tæplega 70 prósent aðspurðra í könnun sem unnin var fyrir Múlaþing um áhrifin af komum skemmtiferðaskipa í nokkrar hafnir sveitarfélagsins segja upplifun sína vera jákvæða.
Könnun þessi var gerð af hálfu Prósents fyrir Múlaþing í nóvember og desember í öllum bæjarkjörnum sveitarfélagsins en alls 407 einstaklingar létu þar skoðanir sínar í ljós. Kveikjan að könnun þessari meðal annars sú staðreynd að sífellt fleiri óánægjuraddir heimamanna hafa heyrst vegna sívaxandi fjölda skipa með sívaxandi fjölda gesta síðustu árin. Svo mjög reyndar að innan Múlaþings hefur komið til umræðu að setja einhvers konar þak á fjöldann.
Þær óánægjuraddir eru þó í miklum minnihluta miðað við niðurstöður Prósents. 68 prósent þátttakenda voru á því að heildaráhrifin af komum skemmtiferðaskipanna hafi reynst jákvæð fyrir sitt bæjarfélag, 21 prósent töldu áhrifin hvorki jákvæð né neikvæð meðan 12 prósent töldu þau sannarlega neikvæð.
Þegar nánar var spurt út í tiltekna þætti sögðu 69 prósent að komur skipanna hefðu jákvæð áhrif á verslun alla og þjónustu í sínum byggðakjarna, 65 prósent sögðu áhrifin af efnahags síns kjarna jákvæð og 57 prósent töldu skipakomurnar auðga lífið og tilveruna. Mun færri voru þó á þeirri skoðun að koma skemmtiferðaskipa gæti orðið mikilvæg efnahagsleg stoð í sínum bæ til frambúðar eða aðeins 48 prósent.
Að sama skapi töldu 78 prósent svarenda nauðsynlegt að bæta innviði síns byggðakjarna vegna skipakomanna. Þar stóð hæst bætt salernisaðstaða að mati 67 prósenta, 49 prósent sögðu nauðsynlegt að bæta vegi og gangstéttir og 37 prósent sögðu þörf á meiri og bættri þjónustu almennt.
Mengun frá umræddum skemmtiferðaskipum hefur verið milli tanna á fólki bæði austanlands og annars staðar en samkvæmt könnuninni eru þó aðeins 37 prósent íbúa sammála því að mengun aukist með skipunum. Sama hlutfall fólks var þessu ósammála.