Skip to main content

Stór vindmyllugarður á Fljótsdalsheiði kominn á rekspöl

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. feb 2022 11:25Uppfært 03. feb 2022 15:02

„Þessi ákveðna staðsetning þótti heppilegust með tilliti til vinda, nálægðar við raforkukerfið, svæðið er stórt og mikið og þetta er dálítið afsíðis,“ segir Ketill Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Zephyr Iceland, en hugmyndir þess um byggingu vindorkugarðs á Fljótsdalsheiði er komnar nokkuð á veg.

Verkefnið hefur verið nokkur ár í bígerð og nú er að hefjast vinna við umhverfismat vegna þess. Gangi allar hugmyndir fyrirtækisins eftir rísa að minnsta kosti tíu vindmyllur á heiðinni í landi Klaustursels í Jökuldal og jafnvel fleiri því eftirspurn eftir raforku á NA-landi virðist veruleg og vaxandi.

Ketill segir að til að verkefni sem þetta verði fjárhagslega skynsamlegt þurfi framleiðslugetan (uppsett afl) að vera að lágmarki u.þ.b. 50 MW. Hver vindmylla yrði um 5-6 MW.

„Það er mat flestra að það verði þörf á aukinni orku á þessu landsvæði í nálægðri framtíð og reyndar er þegar orðið vart við orkuskort í sumum tilfellum. Við gerum ráð fyrir að umhverfismat taki tvö ár eða svo. Einnig þarf skipulagsvinna að fara fram áður en framkvæmdir verða þannig að það eru nokkur ár í að þetta verði að veruleika.“

Zephyr Iceland er að mestu í eigu norska vindorkufyrirtækisins Zephyr AS. Íslenska ráðgjafafyrirtækið Hreyfiafl er einnig hluthafi. Athygli vekur að norska fyrirtækið er ekki einkafyrirtæki heldur að stærstum hluta í eigu norskra sveitarfélaga og fylkja. Ekki ólíkt því sem gildir um Orkuveitu Reykjavíkur og Norðurorku hérlendis.

Mynd: Flickr/IanDick