Stóra-Sandfell eigandi vatnsréttinda í Grímsá en ekki Rarik
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 17. feb 2022 09:56 • Uppfært 17. feb 2022 10:02
Landsréttur hefur dæmt eigendum Stóra-Sandfells í Skriðdal í hag í deilumáli þeirra við Rarik. Dómurinn telur Rarik engin gögn hafa sýnt sem sanni að fyrirtækið eigi vatnsréttindi í landi jarðarinnar í ánni.
Málareksturinn hófst árið 2008 þegar Rarik sendi núverandi eigendum jarðarinnar reikning upp á 1,75 milljónir króna fyrir rafmagnsnotkun. Reikningurinn var sendur með boði um að ef hann yrði ekki greiddur yrði svo litið á að ábúendur fengu 36.975 kWst. af raforku afhentar árlega en yrðu að greiða fyrir alla frekari notkun. Þessari gjaldtöku mótmæltu núverandi ábúendur strax.
Virkjunin reist áður en samningum er lokið
Forsagan teygir sig hins vegar aftur til ársins 1955 þegar þáverandi eigendur jarðarinnar, tveir bræður, undirrituðu yfirlýsingu þar sem þeir lýstu sig fúsa til að afsala sér vatnsréttindum og landi til Rafmagnsveitna ríkisins, gegn því að fá 6 kw af rafmagni yfir 7 vetrarmánuði og 9 kw yfir 5 sumarmánuði, alls 36.975 kWst, svo lengi sem virkjunin starfar. Þar með hófust framkvæmdir við Grímsárvirkjun.
Hún var fullbúin árið 1958 og hófst þá afhending rafmagns til Stóra-Sandfells. Loks árið 1960 skrifuðu bræðurnir undir afsal á 5,6 hekturum lands undir virkjunarmannvirki. Í þeim samningi segir að um vatnsréttindi verði samið sér.
Árið 1962 afsöluðu eigendur Stóra-Sandfells 1 vatnsréttindunum til Rafmagnsveitnanna. Sá samningur tók ekki til Stóra-Sandfells 2 enda segir í skjali frá Rafmagnsveitunum frá árinu 1968 að samningur um vatnsréttindi Stóra-Sandfells 2 sé óundirritaður.
Rarik ohf. tók yfir allar skyldur Rafmagnsveitnanna árið 2006. Dótturfélagið Orkusalan varð til árið 2008 en 2009 afsalaði Rarik Grímsárvirkjun til Orkusölunnar. Í samningi milli félaganna segir að vatnsréttindin fylgi virkjuninni yfir til dótturfélagsins. Við málareksturinn kom fram að eigendur Stóra-Sandfells 2 hefðu ekki vitað um þann samning fyrr en um það leyti sem þeir stefndu Rarik fyrir dóm vegna vatnsréttindanna árið 2019.
Ekki samningur heldur framkvæmdaleyfi
Landeigendur byggðu kröfu sína á því að til að samningar kæmust á þyrfti gagnkvæmar viljayfirlýsingar tveggja aðila. Yfirlýsingin frá 1955 væri einhliða en hún var ekki undirrituð af Rafmagnsveitunum. Hana bæri því að túlka sem framkvæmdaleyfi en ekki afsalssamning.
Út frá þeirri staðreynd að rafmagn hefði um áratugi verið afhent án endurgjalds til ábúenda væri til marks um að Rafmagnsveiturnar sjálfar hefðu ekki litið á samninginn, þótt hagstætt hefði verið að afhenda nokkur kílóvött til lítils sauðfjárbús, þar til Orkusalan hefði einhliða og án heimildar ákveðið að hefja gjaldtöku.
Fengu það sem þeir vildu
Rarik hélt því fram að ábúendur hefðu fengið afhent ríkulega af rafmagni, að verðmæti 40,7 milljóna á verðlagi dagsins meðan vatnsréttindin væru ekki nema 2,7 milljóna virði miðað við fordæmi frá Kárahnjúkavirkjun.
Bræðurnir hefðu á sínum tíma selt land undir byggingarnar og þar með afsalað sér vatnsréttindunum. Yfirlýsing þeirra hefði aldrei verið afturkölluð eða nein andmæli áratugum saman höfð við afhendingu rafmagnsins. Þar með hefðu eigendur Stóra-Sandfells með háttsemi sinni samþykkt samninginn.
Héraðsdómur Reykjavíkur tók að mestu undir málflutning Rarik í dómi sínum haustið 2020. Í þeim dómi segir að yfirlýsing bræðranna sé skýr um að þeir vilji afsala sér vatnsréttindunum gegn því að fá rafmagn. Það væri hvorki leigusamningur né framkvæmdaleyfi. Bræðurnir hefðu síðan fengið það sem þeir vildu, sem og síðari ábúendur, án athugasemda. Eins væri ólíklegt að Rafmagnsveiturnar hefðu lagt í hina miklu fjárfestingu sem virkjunin var án þess að hafa traustari grunn.
Ekkert sem sannar eignarétt Rarik
Eigendur jarðarinnar áfrýjuðu þessum úrskurði til Landsréttar sem komst að annarri niðurstöðu. Í rökstuðningi Landsréttar segir að engin gögn sýni að Rarik hafi eignast beinan eignarétt á vatnsréttindunum á grundvelli afsalsgjörnings, enda hafi vatnsréttindi fylgt landi í gegnum tíðina nema um annað hafi verið samið. Síðustu tíu ár hafi landakaupareglur gilt þegar vatnsréttindi hafi verið látin án eignaréttar. Ekkert liggi fyrir um nákvæmlega um hvers konar réttindi sé um að ræða, þó álítur dómurinn líklegast að um sé að ræða afnotarétt gegn endurgjaldi.
Landsréttur hafnaði fullyrðingu Rarik um að eigendur Stóra-Sandfells hefðu sýnt af sér tómlæti því þeim hefði ekki borið nein skylda til að verja réttindi sín. Eins hafnaði dómurinn röksemdafærslu Rarik um að myndast hefði eign á grundvelli hefðar. Þar með væri ljóst að vatnsréttindin tilheyrðu enn jörðinni.
Rarik var að auki dæmt til að greiða 2,75 milljónir í málskostnað í bæði Landsrétti og héraði.