Stórbæta aðgengi að Búðarárfossi
Þegar öllum tilskildum gögnum hefur verið skilað mun framkvæmdaleyfi verða gefið út til að stórbæta aðgengi að náttúruperlunni Búðarárfossi í Reyðarfirði.
Þetta staðfesti umhverfis- og skipulagsnefnd Fjarðabyggðar nýverið en það er verkfræðistofan Efla sem unnið hefur hugmyndavinnu að hvernig gera megi aðgengi betra og svæðið almennt meira aðlaðandi fyrir heimamenn sem og gesti. Búðarárgil og Búðarárfoss hafa löngum verið vinsæl svæði til útivistar en það er Búðaráin sjálf sem rennur svo alla leið niður gegnum bæinn sjálfan til sjávar fyrir þá sem ekki þekkja til.
Hugmyndir Eflu ganga út á að byggja upp aðalgöngustíg sem yrði aðgengilegur fyrir fjölbreyttan hóp fólks. Á þeim stíg verði gert ráð fyrir áningarstöðum með 100 metra millibili og við enda hans yrði byggður útsýnispallur. Þaðan yrði líka tengistígur fyrir þá sem vilja ganga hringleið ellegar halda lengra áfram upp með ánni.
Búðarárfoss er aðeins nokkur hundruð metrum ofan við Stríðsárasafnið á Reyðarfirði en nokkur hæðarmunur er þó á. Gera tillögurnar ráð fyrir að samnýta salerni og bílastæði með safninu en þar er nú þegar gert ráð fyrir fleiri bíla- og rútustæðum en nú er til staðar. Síðar meir mætti fegra svæðið enn frekar að mati Eflu með því að klæða gamlan vatnstank sem þarna er á svæðinu og jafnvel koma fyrir öðrum útsýnispalla ofan á tanknum.
Hugmyndir Eflu hafa fengið blessun umhverfis- og skipulagsnefndar með þeim fyrirvara að öll tilskilin gögn berist sveitarfélaginu. Forsíðumynd Austurland.is/ Teikning Efla