Stórbæta aðstöðu við Fellavöll enn frekar
Það fer vel á því að allra mati að það er byggingafyrirtækið MVA í Fellabæ sem mun sjá um, fyrir tilstuðlan íþróttafélagsins Hattar, að byggja aðra hæð ofan á núverandi vallarhús við knattspyrnuvöllinn í Fellabæ. Samningur þar að lútandi var undirritaður rétt fyrir jól.
Skammt stórra högga milli í framkvæmdum við Fellavöll en í sumar sem leið var skipt um gervigrasið á vellinum sem hefur lengi þótt miður gott og brýnt orðið að skipta þar um. Nú skal gera gott betra og hefur Höttur, með stuðningi fjölmargra aðila og þar bæði einstaklinga og fyrirtækja, ákveðið að bæta annarri hæð ofan á núverandi vallarhús en það fyrir löngu orðið sprungið.
Að sögn Jóhanns Harðarsonar, formanns knattspyrnudeildar Hattar, verður um gjörbreytingu á allri aðstöðu að ræða á Fellavelli með nýrri hæð en ráð er fyrir gert að Höttur taki við húsinu fokheldu í vor eða snemmsumars og ljúki því sem þarf að ljúka í kjölfarið.
„Þetta þýðir gjörbreytingu til hins betra og ekki bara fyrir Hött heldur öll austfirsk félög því Fellavöllur er gjarnan notaður sameiginlega af félögum hér fyrir austan þegar svo ber við. Á því leikur enginn vafi að önnur hæð mun stórbæta alla aðstöðu fyrir alla sem að koma. Á eftir hæðinni munum við koma fyrir litlu eldhúsi og sjoppu, þar verður lítill salur þar sem fólk getur komið saman og við sjáum fyrir okkur að geti vel orðið nokkurs konar félagsmiðstöð og ekki síður skjól fyrir þá sem þarna æfa í misjöfnum veðrum . Þar verða ein tvö salerni og þar af annað fyrir fatlaða einstaklinga. Þar einnig aðstaða fyrir þjálfara sem er eiginlega ekki til staðar í dag og síðast en ekki síst lítil geymsla sem einnig verður hægt að rýma fyrir öðru ef svo ber undir.“
Jóhann segir að til verkefnisins hafi verið sótt um í sérstakan íþróttasjóð Knattspyrnusambands Íslands en þaðan fengust rúmar fimmtán milljónir króna til þessarar uppbyggingar við Fellavöll. Slíkt fjarri því sjálfgefið því margir séu um hituna enda einungis um 40 milljónir króna til úthlutunar árlega. Styrkurinn sé sá stærsti sem farið hefur austur á land hingað til og skipti sá vitaskuld sköpum í þessu tilliti.
„Það hefur verið frábært að upplifa samstöðu, mikla vinnusemi sjálfboðaliða og ómetanlegan stuðning styrktaraðila við þetta verkefni. Þetta er ekki stórt verkefni í augum margra en fyrir knattspyrnudeild Hattar og knattspyrnu á Austurlandi er þetta stór áfangi. Þessi aðferðarfræði er ekki ný innan Hattar því þetta er þriðja verkefnið sem er unnið á þennan máta en hin voru uppbygging Vilhjálmsvallar á sínum tíma og svo bygging fimleikahússins en bæði þessi verkefni gjörbreyttu aðstöðu fyrir íþróttafólk í viðkomandi greinum þ.e fimleikum, frjálsum og fótbolta.“
Lísa Leifsdóttir, formaður Hattar, og Magnús Baldur Kristjánsson, framkvæmdastjóri MVA, við undirritun samningsins fyrir skemmstu. Mynd MVA