Skip to main content

Stórefla skal þjónustu og réttindi fatlaðs fólks með viðamikilli landsáætlun

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 23. jún 2023 14:40Uppfært 23. jún 2023 17:45

Fatlað fólk áí framtíðinni alfarið að njóta sömu réttinda, aðstoðar og þjónustu og aðrir þegnar landsins samkvæmt viðamikilli landsáætlun sem Félags- og vinnumálaráðuneytið vinnur nú að.

Reyndin er að pottur er mjög víða brotinn í íslenska kerfinu þegar kemur að réttindum, aðstoð og þjónustu allri við fatlaða einstaklinga. Gildir þá einu hvort um er að ræða lágmarksbætur til öryrkja, takmarkaðra aðgengis að stafrænni þjónustu eða lausnum eða einfaldlega þá staðreynd að margir fatlaðir einstaklingar geta illa lifað sjálfstæðu lífi né notið lífsins án aðgreiningar í samfélaginu. Tækifæri þeirra margra eru mun takmarkaðri en annars fólks.

Þessu vill Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumálaráðherra, breyta til batnaðar eins fljótt og auðið er en hann kynnti verkefnið sérstaklega á fundi á Egilsstöðum í vikunni. Auk hans komu þar fram fulltrúar frá Þroskahjálp og Öryrkjabandalaginu (ÖBÍ) en sjálft verkefnið mun taka til velflestra ráðuneyta landsins.

Verkefnið í heild tekur til fjögurra meginþátta að sögn ráðherrans.

„Í fyrsta lagi heildar endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu. Það felur í sér að einfalda það kerfi, að reyna að búa til hvata inn í kerfið sem hvetur til virkni fólks og að hækka framfærslu. Sem dæmi þá hefur kerfið í dag fimm til sjö bótaflokka sem hver um sig hafa mismunandi frítekjumörk og prósentuskerðingar einnig mismunandi á milli flokka auk þess sem víxlverkanir á milli flokka eru flóknar. Þannig að kerfið allt er þungt og flókið og í raun þannig að það fælir fólk frá því að reyna fyrir sér á vinnumarkaðnum. Það er til mikils að vinna að reyna að einfalda og straumlínulaga þetta. Að gera þetta þannig úr garði að þeir sem geta ekki unnið hafi örugga framfærslu og þeir sem geti unnið hafi tækifæri til þess.“

Annar póstur verkefnisins er svo Landsáætlunin sem tekur stórt mið af Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna (SÞ.) Þar er kveðið á um skýlausan rétt allra að njóta sömu réttinda í hverju landi fyrir sig. Þar mikil vinna þegar átt sér stað og í öllum tilfellum í samvinnu við hagsmunaaðila og samtök á borð við ÖBÍ og Þroskahjálp. Sjálfur gerir Guðmundur sér vonir um að samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur hér á landi fyrir árslok 2024.

Þriðji þátturinn sem taka skal á er að einfalda og auka aðgengi fatlaðs fólks að námi og starfi hvers kyns og í fjórða lagi að bæta til muna aðgengi fatlaðs fólks að stafrænni þjónustu. Ítrekað hefur komið í ljós að margt fatlað fólk getur ekki eða  illa nýtt sér stafrænar lausnir eins og aðrir þegnar landsins.

Aðgerðaáætlun félagsmálaráðherra í málefnum fatlaðs fólks mun taka mið af áherslum og ábendingum fatlaðra sjálfra og nærstaddra og í lok fundarins á Egilsstöðum settust fundargestir saman niður og köstuðu fram sínum hugmyndum til ráðherrans. Mynd AE