Stórfelldur seiðadauði setti verulegt strik í afkomu Kaldvíkur
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 15. maí 2025 11:49 • Uppfært 15. maí 2025 12:09
Stórfelldur dauði seiða, sem sett voru út í eldiskvíar Kaldvíkur í Fáskrúðsfirði seint síðasta haust, virðist hafa sett stórt strik í afkomu fyrirtækisins. Að teknu tilliti til afskrifta þess varð afkoma félagsins neikvæð á síðasta ári þótt rekstrartekjur þess margfölduðust.
Þetta kemur fram í ársskýrslu fyrirtækisins sem samþykkt var á aðalfundi þess í gær. Lykiltölur úr rekstri eru í tveimur þáttum, annars vegar venjulegar, hins vegar eftir útreikning á líffræðilegum eignum, einskiptis afskriftum og framleiðsluskatti.
Fyrri tölurnar líta vel út, enda margfölduðust rekstrartekjur Kaldvíkur í fyrra, fóru úr 5,8 milljörðum króna í 15,7. Stærsta skýringin er framleiðsluaukning. Í fyrra var slátrað tæpum 15.000 tonnum eða um 4.400 tonnum meira en árið áður. Þá var verið að glíma við afleiðingar ISA-veiru sem kom upp og varð til þess að slátra varð fiskum í snatri áður en þeir gátu vaxið upp í fulla sláturstærð. ISA-veiran er sögð úr sögunni en í fyrra var að fullu innleidd bólusetning gegn henni.
Út frá þessu skilar félagið þriggja milljarða hagnaði fyrir skatta og afskriftir, samanborið við tvo í fyrra. Hagnaður eftir skatta og afskriftir af rekstri nemur 1,3 milljörðum samanborið við 408 milljónir árið áður og 8% framlegð.
Staðan breytist eftir útreikning á því sem kallast breyting á líffræðilegum eignum, einskiptiskostnaði og fiskeldisgjaldi. Þá er afkoman 1,3 milljarða tap fyrir afskriftir og skatta en 2,9 milljarða tap eftir það. Árið 2023 var hagnaður í þessum lið eftir skatta og afskriftir 2,5 milljarðar. Veltufé frá rekstri er neikvætt um tæpa 2,2 milljarða, sem er þó framför frá yfir sex milljörðum í fyrra.
Afskrifa 3,5 milljarða vegna seiðanna sem drápust
Það sem þarna virðist muna mestu um er stórfelldur seiðadauði sem varð í Fáskrúðsfirði í nóvember. Í skýrslunni kemur fram að vegna ofmettunar hafi útsetning seiða tafist og síðan hafi veðurfarsaðstæður versnað. Útkoman varð að Kaldvík lauk árinu með 1,2 milljónum færri seiðum í sjó en áætlað var. Þetta veldur afskriftum upp á 3,5 milljarða króna.
Einnig kemur fram að vegna þessa dauða sé ábatinn af bólusetningunni gegn ISA-veirunni ekki kominn fram að fullu. Þá segir að fram að dauðanum á fjórða ársfjórðungi hafi afföll í eldi Kaldvíkur verið undir því meðaltali greinarinnar í Noregi. Dauðinn hefur ennfremur þau áhrif að reiknað er með að 3.500 tonnum minna verði slátrað á þessu ári. Samkvæmt uppfærðum áætlunum verður í ár slátrað 21.000 tonnum.
Matvælastofnun kærði atvikið til lögreglunnar á Austurlandi þar sem stofnunin taldi ákvörðunina um að setja út seiðin í kaldan sjóinn hafa brotið gegn dýraverndarlögum. Það er í rannsókn.
Íslenska krónan einn helsti áhættuþátturinn
Í árskýrslunni er síðasta ári lýst sem ári breytinga hjá Kaldvík. Í fyrsta lagi tók það nafn við af eldra heiti Fiskeldis Austfjarða og Laxa fiskeldis. Í öðru lagi var félagið skráð í íslensku Kauphöllina. Þá tók Roy-Tore Rikardsen við sem framkvæmdastjóri af Guðmundi Gíslasyni, sem er framkvæmdastjóri sölusviðs.
Kaldvík eignaðist einnig að öllu kassaverksmiðju og sláturhús á Djúpavogi sem gefur fyrirtækinu betra vald á virðiskeðjunni og afköstum. Í sláturhúsinu var ný slægingarvél tekin í notkun.
Félagið er með eldi í Berufirði, Fáskrúðsfirði og Reyðarfirði auk leyfis í Stöðvarfirði sem ekki hefur enn verið nýtt. Þá hefur það sótt um leyfi í Seyðisfirði sem er í ferli. Í skýrslunni segir að þótt leyfið sé ekki í höfn séu fjárfestingar þar hafnar.
Íslenska krónan og gengi hennar gagnvart öðrum gjaldmiðlum er sögð einn helsti áhættuþátturinn í rekstrinum, því framleiðslukostnaður sé að mestu í henni en tekjur í evrum og dollurum. Kaldvík gerir upp í evrum.
Hjá Kaldvík störfuðu í lok síðasta árs 207 starfsmenn, þar af var fjórðungurinn konur.