Stórt stökk í fjölda Austfirðinga sem njóta endurhæfingarlífeyris
Í janúarmánuði árið 2000 fengu alls þrettán Austfirðingar greiddan endurhæfingarlífeyrir. Í janúar á þessu ári var heildarfjöldinn 123 einstaklingar sem þess nutu. Það gerir 850% aukningu á 25 árum.
Svokallaður endurhæfingarlífeyrir er ætlaður þeim einstaklingum sem hafa vegna veikinda eða slysa orðið óvinnufærir og þurfa endurhæfingu til að komast aftur út á vinnnumarkaðinn með góðu móti. Markmiðið því að efla viðkomandi til að ná starfshæfni að nýju og á meðan því ferli stendur tryggir endurhæfingarlífeyrir umræddum einstaklingum framfærslu á meðan það stendur yfir.
Þó fjölgað hafi þeim er nýta sér slíkan lífeyri um 850% frá aldamótum austanlands vekur sérstaka athygli í glænýrri uppfærðri tölfræði Tryggingastofnunar hve mikið hefur fjölgað sérstaklega í þessum hópi á aðeins tveimur síðustu árum.
Í þeirri tölfræði eru taldir þeir sem endurhæfingarlífeyris njóta í janúarmánuði hvert ár austanlands. Í janúar 2023 fékk 51 Austfirðingur endurhæfingarlífeyri en fjöldinn taldi 123 síðastliðinn janúar. Það er 140% fjölgun á aðeins tveimur árum. Af þeim hópi er töluverður kynjahalli því hópurinn samanstendur af 85 konum en 38 körlum.
Tölfræðin segir þó ekki alla söguna af Austurlandi eins og fram kom í viðtali Austufréttar við Sigurlínu Kjartansdóttur, yfirmanns sálfræðiþjónustu Heilbrigðisstofnunar Austurlands í síðasta mánuði. Það er nefninlega töluverður fjöldi fólks sem kemst ekki út á vinnumarkaðinn sökum veikinda eða slysa sem ekki treystir sér í starfsendurhæfingu af neinu tagi. Skaut Sigurlín á að sá fjöldi gæti skjagað langleiðina í hundrað manns. Þeir einstaklingar fá því engan endurhæfingarlífeyri.
Endurhæfing eftir slys, áföll eða veikindi getur bæði verið með líkamlegu eða andlegu móti. Myndin tengist efninu ekki beint.