Stórtjón á sjóvarnargörðum á Vopnafirði
„Þetta er sannarlega mikið tjón og ljóst að það er mikil vinna framundan við lagfæringar,“ segir Lárus Ármannsson, settur hafnarvörður á Vopnafirði.
Vopnfirðingar fóru ekki varhluta af óveðrinu sem gekk yfir Austurlandið í gær og fyrradag en báðir sjóvarnargarðar í höfn bæjarins létu verulega á sjá í miklu brimi sem gekk langt upp á land þegar verst lét. Lárus segir þrjú stór skörð komin í innri varnargarðinn eftir lætin sem hann segir með versta veðri sem hann hafi vitnað.
„Öll skip eru nú farin þannig að hættan er lítil og smábátahöfnin sjálf slapp að mestu og er í lagi. En þetta þýðir auvitað að þegar innri garðurinn gefur sig þá þarf ekki aðeins að lagfæra hann heldur og ytri garðinn líka og ytri garðinn þarf að færa til vegar fyrst svo þetta gerist ekki aftur.
Lárus segir ómögulegt að meta tjónið að svo stöddu en engin spurning sé um að töluverðar framkvæmdir þurfi til að lagfæra það sem þurfi.
„Ég held að það sé vonlítið að fara í viðgerðir nú yfir vetrartímann en það er ljóst að það er nauðsynlegt fyrr en síðar. Nú verður bara að vona að ekkert meira svona ofsaveður sé í kortunum á næstunni því þá erum við illa sett.“
Frá Vopnafirði. Á myndinni má sjá hluta varnargarðanna sem um ræðir í fjarska.