Strætóstopp við Egilsstaðaflugvöll ekki talið fýsilegt að svo stöddu

Í aðdraganda þess að Isavia hugðist taka upp bílastæðagjöld við flugvöllinn á Egilsstöðum var gerð tilraun af hálfu þess fyrirtækis sem sér um strætisvagnaakstur milli Fellabæjar og Egilsstaða hvort hægt væri að bæta við stoppi við völlinn án þess að setja alla áætlun úr skorðum. Það reyndist vel hægt ef ein stoppistöð var tekin út á móti en þótti ekki fýsilegt af hálfu Múlaþings.

Í kjölfar mikilla kvartana Austfirðinga vegna bílastæðagjalda við Egilsstaðaflugvöll síðustu vikur og mánuði hafa ýmsir komið fram með hugmyndir og ábendingar um hvernig íbúar geti forðast þennan auka „landsbyggðaskatt“ eins og gjarnan er talað um.

Þykir ýmsum vænsti kosturinn sá að bæta flugvallarstoppi við strætóáætlun milli Fellabæjar og Egilsstaða en með þeim hætti gæti fólk komist á völlinn án þess að hreyfa bílinn eða í öllu falli lagt bílum sínum á gjaldfrjálsum svæðum og nýtt ferðir strætó á völlinn þaðan.

Einn þeirra sem vakti máls á þessu snemma í vor er Hlynur Bragason eigandi Sæti ehf. sem sér um fyrrnefndar strætósamgöngur en dags daglega eru sautján ferðir í boði á milli staðanna tveggja og stoppistöðvar alls níu.

„Við ákváðum, með samþykki Múlaþings, að prófa í þrjá daga að stoppa á vellinum báðar leiðir til að sjá hvort það væri hægt án þess að riðla þeirri áætlun sem nú er í gildi. Niðurstaðan varð að það væri sannarlega hægt en til að vel væri þyrfti að leggja af eina aðra stoppistöð á móti. Á það leist þeim hjá Múlaþingi þó ekki þannig að þessu var sjálfhætt.“

Sjálfur segir Hlynur að honum hafi alltaf þótt skrýtið að ekki væri almennt í boði að taka strætó á flugvöllinn en sýnu skrýtnara nú í kjölfar bílastæðagjalda. Annars staðar þar sem sömu gjöld hafi verið tekin upp; á Akureyri og í Reykjavík, gangi strætisvagnar reglulega og hafi gert lengi.

Aðspurður út í þetta segir Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, að flugvallarstopp sé í skoðun innan sveitarfélagsins en hann bendir jafnframt á að þar sem innanlandsflugið standist ekki alltaf tímaáætlun sé ekki gefið að sú leið muni leysa mikið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.