Skip to main content

Strætóstopp við Egilsstaðaflugvöll loks að veruleika

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. maí 2025 11:19Uppfært 27. maí 2025 11:25

Sex mánuðum eftir að samþykkt var af hálfu umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings að bæta stoppi við Egilsstaðaflugvöll við leiðakerfi strætó mun það loks raungerast frá og með næsta mánudegi. Þó aðeins í tilraunaskyni fram á sumarið.

Lengi hefur ýmsum þótt skringilegt að engar hefðbundnar strætóferðir hafa verið í boði til og frá Egilsstaðaflugvelli þó strætisvagn aki þar framhjá mörgum sinnum daglega milli Egilsstaða og Fellabæjar. Köll um breytingar á þessu urðu háværari í kjölfar þess að Isavia tók upp bílastæðagjaldskyldu við flugvöllinn í júní í fyrra og var tekið vel í þær óskir innan stjórnkerfis Múlaþings.

Frá og með næsta mánudegi mun strætisvagn gera stopp við flugvöllinn í tengslum við áætlunarflug Icelandair dag hvern. Stoppistöðin verður staðsett fremst á bílastæði vallarins svo vagninn ekur ekki hefðbundinn hring eins og flestir þeir sem erindi eiga.

Um tilraunaverkefni er að ræða og verður leiðakerfið endurskoðað að nýju að teknu tilliti til hvernig gengur í sumar þann 18. ágúst. Þetta mun gefa flugfarþegum færi á að leggja bifreiðum sínum inn á Egilsstöðum ellegar í Fellabæ og komast þannig hjá bílastæðagjöldum Isavia sem mjög hafa verið gagnrýnd.

Til að standast tímasetningar verður á móti nokkrum stoppum breytt. Þannig verður stopp vagnsins við grafreitinn í Hamragerði fært yfir á Kaupvang og stopp við Landsbankann verður fært neðan við menningarmiðstöðina Sláturhúsið. Þá verður einungis stoppað við Einhleyping og bensínstöð við Lagarfell Fellabæjarmegin.

Strætóferðir í þéttbýlinu á Héraði eru gjaldfrjálsar ólíkt bílastæðunum við Egilsstaðaflugvöll. Mynd Múlaþing