Skip to main content

Strandveiðisjómenn fengu óvenju stóran þorsk úti fyrir Austfjörðum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 18. júl 2025 15:01Uppfært 18. júl 2025 15:01

Strandveiðar úti fyrir Austfjörðum gengu betur en oft áður þar sem stærri þorskur var á ferðinni en mörg fyrri ár. Eftir að Alþingi tókst ekki í tæka tíð að samþykkja lög um 48 daga veiðar voru veiðar stöðvaðar í vikunni.


Bann við strandveiðunum tók gildi í gær eftir að kvóti ársins kláraðist. Upphaflega var gefin út 10.000 tonna kvóti en tvær vikur er síðan hann var aukinn um rúm 1.000 tonn. Á sama tíma og veiðunum lauk voru málefni byggðakerfis, sem strandveiðarnar tilheyra, færð frá atvinnuvegaráðuneyti til innviðaráðuneytis.

Strandveiðar á svæði C, sem nær yfir Austfirði, hafa dregist saman undanfarin ár eftir að svæðaskiptingu kvóta var hætt. Alla jafna gengur stærsti fiskurinn ekki austur fyrir land fyrr en líður á sumarið sem þýðir að stöðvun veiðanna um miðjan júlí kemur hvað verst við Austfirðinga.

Guðlaugur Birgisson, formaður Félags smábataeigenda á Austurlandi, segir að veiðarnar í ár hafi verið óvenju góðar. „Mér heyrist að alls staðar á svæðinu hafi verið stór fiskur. Ég hef ekki heyrt annað en um góða veiði alveg norður úr. Vertíðin var því ágæt,“ segir hann.

Guðlaugur, sem gerir út frá Djúpavogi, segir einn bát, Nonna SU, hafa náð yfir 30 tonnum á vertíðinni. Samkvæmt lista Aflafrétta var Nonni næstaflahæstur yfir landið í júlí, með rúm níu tonn.

Aðspurður segist Guðlaugur ekki kunna sérstakar skýringar á þeim stóra fiski sem hefur verið við Austfirði. Hlýindi á landi skiluðu sér ekki í sjóinn í vetur. „Sjórinn í vetur var óvenju kaldur. Það virðist bara mikið af stórum þorski á ferðinni og hann er svangur, því það er auðvelt að veiða hann.“