Skip to main content

Straumur í gjörbreyttum miðbæ Egilsstaða

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 24. mar 2022 11:14Uppfært 24. mar 2022 11:18

Miðbær Egilsstaða verður nánast óþekkjanlegur frá því sem nú er samkvæmt nýju deiliskipulagi fyrir miðbæjarsvæðið sem staðfest var fyrir skömmu. Áherslan verður á lágreista en þétta byggð með stórauknu hlutfalli íbúða, verslana og grænna aðlaðandi svæða.

Uppbygging á þessum nýja miðbæ er reyndar hafin en skipulagið gerir ráð fyrir 160 íbúðum á efri hæðum og verslun og þjónustu á jarðhæð. Þessi nýi kjarni mun heita Straumur og miðpunkturinn verður göngugatan Ormurinn.

Líflegri miðbær og meira aðlaðandi

Markmiðið með nýja skipulaginu er að skapa vistvænt umhverfi sem bæði dregur að sér íbúa en ekki síður ferðafólk. Gert er ráð fyrir opnum og gróðusælum torgum og útivistarsvæðum sem er fjarri almennri bílaumferð en með góða aðstöðu fyrir strætisvagna og langferðabifreiðar. Áhersla verður lögð á gangandi og hjólandi vegfarendur.

Ormurinn í aðalhlutverki

Miðpunktur þessa alls verður göngugatan Ormurinn sem verður sunnan Fagradalsbrautar og vísar vitaskuld til Lagarfljótsormsins. Inngangar inn í verslanir verða frá göngugötunni en bílastæði verða baka til. Umhverfið við og í kringum göngugötuna verður gert aðlaðandi með gróðri og fallegum setsvæðum.

Til að mæta ólíkum þörfum íbúa og gesta er Orminum skipt niður í þrjú minni dvalarsvæði; leiksvæði, torg og samkomusvæði sem virka eins og upphaf, miðja og endir.

Við norðurausturenda Ormsins verður svæði með bekkjum, gróðri og möguleika á litlu leiksvæði. Torgið fyrir miðri göngugötu sem mun nýtast fyrir ýmsa viðburði eða hátíðarhöld. Við suðurendann verður svo samkomusvæði sem teygir sig niður í almenningsgarð með leiksvæði en það svæði hannað með tilliti til veðurs og vinda. Almenningsgarðurinn mun einnig nýtast fyrir leik og útivist og mögulegt er að í garðinum verði tjarnir, boltavöllur, listaverk, grillaðstaða auk annars.

Nýtt en á gömlum grunni

Nýja skipulagið er þó nokkuð gamalt þegar allt kemur til alls því það byggir að stórum hluta til á niðurstöðum úr hugmyndasamkeppni sem haldin var árið 2004. Deiliskipulag sem tók mið af sigurtillögu frá Arkís arkitektastofa var samþykkt 2006 en komst aldrei til framkvæmda. Níu árum síðar, 2015, var verkefnið endurvakið og Arkís falið að vinnu skipulag í samvinnu við þáverandi bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs. Þau drög samþykkt ári síðar og á síðasta ári var skipulagið loks endanlega samþykkt.

Múlaþing hefur látið útbúa sérstakt kynningarmyndband á nýja miðbænum sem sjá má hér.