Strax jákvæð áhrif af snjallsímabanni í Egilsstaðaskóla

Frá ársbyrjun hefur börnum og unglingum í Egilsstaðaskóla verið meinað að nota snjallsíma sína meðan á skólatíma stendur. Nú einum og hálfum mánuði síða eru strax sjáanleg jákvæð áhrif að sögn skólastjórans.

Það var snemma í vetur sem foreldraráð skólans ákvað að leita fulltingis skólayfirvalda þess efnis að banna alfarið notkun snjallsíma á skólatíma og það strax á nýju ári. Var vel tekið í það af hálfu skólastjórnenda og kennarara enda hugmyndir þessa efnis komið til tals áður og svipað bann var á áætlun skólayfirvalda frá næsta hausti. Ástæða þess mikil og alvarleg skjáfíkn barna og unglinga sem getur auðveldlega haft neikvæð áhrif í kennslustundum sem annars staðar í þjóðfélaginu.

Þó boð og bönn af þessu tagi séu ekki óþekkt annars staðar frá ákvað foreldrafélagið og skólinn að fara aðeins öðruvísi leið að markmiðinu og það einfaldlega með beinni samvinnu við börnin sjálf. Fyrstu tveir mánuðirnir yrði prufutími áður en til kæmu sérstakar aðgerðir eða viðurlög og nemendur hafa á öllum stigum fengið að hafa sitt að segja um ferlið.

Kristín Guðlaug Magnúsdóttir, skólastjóri Egilsstaðaskóla, segir verkefnið hafa gengið afar vel. Yfirgnæfandi meirihluti nemenda sé vel með á nótunum þó vissulega sé einn og einn nemandi sem eigi erfiðara að slíta sig frá símunum en aðrir.

„Við höfum í janúar og það sem af er febrúar verið í svona tilraunastarfi hvað þetta varðar. Þennan tíma höfum við aðeins verið með áminningar til krakkanna en engin viðurlög. Við reynum í staðinn samningaviðræður við þau og í heildina gengur þetta ótrúlega vel. Mótþrói hefur verið lítill sem enginn sökum þess að við fórum þá leið að hafa krakkana og foreldrana með okkur í þessu í öllum undirbúningi og skipulagi. Við hlustum vel á það sem krökkunum finnst og hvaða tillögur þau koma með og tökum tillit til þess. Nú eru þau til dæmis búin að taka samtal við sinn umsjónarkennara um hvaða reglur og viðurlög eigum við að láta gilda og foreldrar koma að því líka. Svo ætlum við að smíða einhverjar mjög einfaldar reglur.“

Reglurnar frá áramótum hafa verið þær að óskað var eftir að krakkarnir skildu síma sína eftir heima á skólatíma en þau máttu ef þau þurftu hafa þá meðferðis með samþykki foreldra. Þá þyrfti síminn að hljóðlaus og í skólatösku eða í sérstakri geymslu skólans þangað til skóladeginum lyki.

„Auðvitað höfum við alveg þurft að minna krakkana á þetta og við vissum að það yrði raunin í tilfellum því margir eru orðnir ansi háðir símunum. En á móti erum við líka að heyra ofsalega jákvæða hluti frá þeim og foreldrunum. Krakkarnir eru að tala meira saman, einbeita sér betur í kennslustundum og sinna vinum sínum betur. Það eru nokkrir nemendur sem eiga erfitt með þetta fyrirkomulag og þá reynum við, í stað þess að fara í einhverja hörku að leita lausna og þá með þeim sjálfum.“

Þetta fyrirkomulag hefur vakið athygli skólastjórnenda annars staðar á Austurlandi en þeir fengu kynningu á þessu átaki hjá Egilsstaðaskóla fyrir áramótin. Það því hugsanlegt að sams konar samvinnufyrirkomulag verði tekið upp víðar í stað boða, banna og viðurlaga.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.