Skip to main content

Stríður straumur skemmtiferðaskipa austur í sumar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. apr 2022 14:06Uppfært 25. apr 2022 14:30

Ef lóan og lundinn boða komu vorsins má kannski segja að skemmtiferðaskip boði komu sumars en vertíðin, sem senn fer að hefjast, verður stærri en nokkru sinni hér austanlands.

Seyðisfjörður verður þar í aðalhlutverki en hvorki fleiri né færri en 72 skip eru bókuð þangað næstu mánuðina og með þeim kringum 60 þúsund ferðamenn sem flestir stíga í land frá nokkrum klukkustundum og upp í sólarhring. Þessar skipakomur eru í viðbót við hefðbundnar ferðir Norrænu til bæjarsins.

Á Djúpavogi mega ferðaþjónustuaðilar einnig eiga von á önnum en ein 33 skemmtiferðaskip hafa tilkynnt komur þangað fram á haustið. Þar sömuleiðis staldra þau flest við í hálfan dag eða svo til að gefa gestum sínum færi á að kíkja í land áður en ferð er fram haldið.

Önnur sjö skemmtiferðaskip gera sig heimakomin í höfnum Fjarðabyggðar samkvæmt upplýsingum þaðan í frá. Gera má ráð fyrir að flest leggi að á Eskifirði. Þá munu nokkur skip henda akkeri utan við Borgarfjörð eystri.

Í einhverjum tilfellum, en ekki öllum, er um sömu skipin að ræða sem flakka á milli staðanna en engu að síður er ljóst að allt stefnir í metsumar 2022 í skipakomum skemmtiferðaskipa. Það met heyrir líklega sögunni til strax á næsta ári því nú þegar eru enn fleiri skemmtiferðaskip bókuð til Seyðisfjarðar 2023 en yfirstandandi ár.

Mynd: Eitt skipanna sem heimsótti Seyðisfjörð síðasta sumarið en mjög dró úr slíkum ferðum yfir Covid-tímabilið. Nú er greinin aldeilis að taka við sér á nýjan leik. Mynd Múlaþing