Skip to main content

Stuðningur við verkefni á Seyðisfirði og ofanflóðavarnir á fundi ríkisstjórnarinnar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 31. ágú 2023 12:18Uppfært 31. ágú 2023 16:08

Stuðningur við verkefni á Seyðisfirði í kjölfar skriðufallanna í desember 2020 og ofanflóðavarnir á Austurlandi voru meðal dagskrárliða á ríkisstjórnarfundi sem haldinn var á Egilsstöðum í morgun.


Annars vegar er um að ræða stuðning við tilfærslu menningarsögulegra húsa á Seyðisfirði, hins vegar framlenging á atvinnuþróunar- og samfélagsverkefni sem hrundið var á stað á Seyðisfirði í kjölfar skriðufallanna.

Samkvæmt dagskrá, sem gerð var opinber þegar fundi lauk á vef stjórnarráðsins, þá ræddi umhverfis-, orku- og loftslagsmálaráðherra einnig stöðu ofanflóðavarna á Austurlandi og úttekt á ofanflóðavörnum á atvinnusvæðum, sem Austurfrétt hefur fjallað um. Innviðaráðherra fór yfir ástand þjóðvega.

Á landsvísu var athyglin mest á ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur, matvælaráðherra, um hvalveiðar. Ákveðið hefur verið að heimila veiðar frá og með morgundeginum með skilyrðum.

Fjármálaráðherra fór yfir stafræna framsetningu fjármálafrumvarps næsta árs og verðbólguþróun. Nánari upplýsingar um málin fást síðar í dag þegar helstu fundir eru afstaðnir.

Ríkisstjórnarfundurinn átti að hefjast klukkan níu í morgun en þar sem flug úr Reykjavík dróst um tæplega einn og hálfan tíma var hann ekki settur fyrr en kortér yfir 10. Fundurinn stóð fram undir hádegi. Þá hófst fundur með sveitarstjórnarfólki á Austurlandi.

Létt var yfir ráðherrum við upphaf fundarins í morgun.