Stundaskrár tilbúnar og kennsla víðast hvar komin í gang
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 23. ágú 2023 13:36 • Uppfært 23. ágú 2023 14:16
Fyrsti kennsludagur eða skólasetning er í flestum grunnskólum Austurlands í dag. Framhaldsskólarnir voru komnir í gang í byrjun vikunnar.
Skólasetningar eða annars konar dagur með viðtölum við foreldra voru á Norðfirði, Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði, Vopnafirði, Stöðvarfirði og Breiðdal, Seyðisfirði og í Brúarási í dag. Á þessum stöðum er fyrsti kennsludagur samkvæmt stundatöflu í dag.
Fellaskóli var líka settur í gær. Í kjölfar athafnar í skólanum fóru nemendur og foreldrar út og föðmuðu skólann.
Skólasetningar voru í morgun á Eskifirði og Egilsstöðum en kennt samkvæmt stundaskrá í á morgun. Á Eskifirði hefur verið unnið hörðum höndum að því að koma skólanum í nothæft ástand eftir að mygla og raki greindist í honum á síðustu vorönn.
Á Djúpavogi hafa umsjónarkennarar tekið viðtöl við foreldra og nemendur í dag og í gær. Fyrsti eiginlegi skóladagurinn er á morgun.
Í Verkmenntaskóla Austurlands var nýnemadagur á föstudag en kennsla hófst á mánudag. Í Menntaskólanum á Egilsstöðum var nýnemadagur á mánudag en skólasetning í gærmorgun og kennsla í kjölfarið. Samkvæmt frétt á heimasíðu skólans eru nemendur í byrjun annar 202, þar af 62 nýnemar.
Síðastur í röð austfirsku skólanna er síðan Hallormsstaðaskóli sem settur verður næsta þriðjudag í 93. skipti.
Víðast hvar markast fyrstu skóladagarnir af einhvers konar útikennslu. Nemendur fara í gönguferðir eða fræðast um náttúru og nærumhverfi með öðrum hætti.