Stundum eins og einhver segi mér að taka steinana þótt þeir séu ljótir

audunn_baldurs_steinar_djup.jpgAuðunn Baldursson hefur safnað steinum af ástríðu í tuttugu ár. Nýlega opnaði hann safn á Djúpavogi þar sem hann sýnir helstu gripina.

 

Steinarnir á safninu hafa verið skornir í sundur og slípaðir til. Rúm tvö ár eru síðan Auðunn fór að vinna steinana á þann hátt. „Ég hafði ekki litið inn í þá áður.“

Þótt steinarnir séu fallegir að utan opnast nýr heimur þegar þeir eru unnir á þennan hátt. Sumir steinanna bera innri fegurðina síður en svo utan á sér. „Það er stundum eins og einhver segi mér að taka steinana með heim þótt þeir séu ljótir,“ útskýrir Auðunn.

Steinarnir eru flestir úr jaspisi og agati og koma af svæðinu umhverfis Djúpavogi. Sá þyngsti vóg 460 kílógrömm áður en hann var sagaður í tvennt en þannig stendur hann inn í safninu. Það tekur Auðunn tæpar tvær vikur að vinna hvern stein en við það nýtur hann aðstoðar bróður síns.

Hann segist hafa fengið marga gesti fyrstu vikurnar og ferðamenn séu ánægðir með safnið. „Íslendingarnir sem hingað koma eru margir þakklátir mér fyrir að sýna hvað náttúran okkar hefur upp á að bjóða.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.