Skip to main content

Stundum eins og einhver segi mér að taka steinana þótt þeir séu ljótir

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. ágú 2010 22:06Uppfært 08. jan 2016 19:21

audunn_baldurs_steinar_djup.jpgAuðunn Baldursson hefur safnað steinum af ástríðu í tuttugu ár. Nýlega opnaði hann safn á Djúpavogi þar sem hann sýnir helstu gripina.

 

Steinarnir á safninu hafa verið skornir í sundur og slípaðir til. Rúm tvö ár eru síðan Auðunn fór að vinna steinana á þann hátt. „Ég hafði ekki litið inn í þá áður.“

Þótt steinarnir séu fallegir að utan opnast nýr heimur þegar þeir eru unnir á þennan hátt. Sumir steinanna bera innri fegurðina síður en svo utan á sér. „Það er stundum eins og einhver segi mér að taka steinana með heim þótt þeir séu ljótir,“ útskýrir Auðunn.

Steinarnir eru flestir úr jaspisi og agati og koma af svæðinu umhverfis Djúpavogi. Sá þyngsti vóg 460 kílógrömm áður en hann var sagaður í tvennt en þannig stendur hann inn í safninu. Það tekur Auðunn tæpar tvær vikur að vinna hvern stein en við það nýtur hann aðstoðar bróður síns.

Hann segist hafa fengið marga gesti fyrstu vikurnar og ferðamenn séu ánægðir með safnið. „Íslendingarnir sem hingað koma eru margir þakklátir mér fyrir að sýna hvað náttúran okkar hefur upp á að bjóða.“