Stutt við markaðssetningu Egilsstaðaflugvallar
Þrjátíu milljónum króna verður varið á næstu tveimur árum til að styðja við markaðssetningu Egilsstaðaflugvallar og Akureyrarflugvallar sem áfangastaða í millilandaflugi. Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra undirritaði samning þess efnis við Íslandsstofu í gær, en samningurinn er framhald á fyrri stuðningi.
Verkefnið kallast Nature Direct og er því ætlað að hvetja til frekara samstarfs við kynningu á flugvöllunum tveimur sem kostum fyrir beint millilandaflug. Þau sem koma að verkefninu eru Íslandsstofa, Isavia, Markaðsstofa Norðurlands og Austurbrú. Markmiðið er að koma á beinu og reglulegu millilandaflugi um flugvellina tvo.
Sömuleiðis ákvað Lilja Dögg að veita Austurbrú og Markaðsstofu Norðurlands hvorri fyrir sig 20 milljóna króna framlag til að kynna áfangastaðina, innviði og þjónustu sem í boði er ásamt vöruframboði, og undirbúa komu væntanlegra ferðamanna í landshlutana með beinu millilandaflugi um flugvellina.
Í tilkynningu frá ráðuneytinu er haft eftir Lilju Dögg að það sé eitt hennar forgangsmála að stuðla að frekari dreifingu ferðamanna um landið utan háannatíma. Það bæti rekstrarskilyrði, auki fyrirsjáanleik og bæti nýtingu innviða. „Skilvirkasta leiðin til þess er að ýta undir beint millilandaflug til alþjóðaflugvallanna á landsbyggðinni,“ er haft eftir Lilju Dögg.
„Uppbygging Egilsstaðaflugvallar er forsenda þess að á Austurlandi geti dafnað öflug og sjálfbær ferðaþjónusta allt árið um kring,“ segir Dagmar Ýr Stefánsdóttur, framkvæmdastjóri Austurbrúar á vefsíðu Austurbrúar. Þar segir Dagmar að þrátt fyrir að freðaþjónustan hafi eflst mikið á síðustu árum og Austurland hafi líklega aldrei haft eins mikið aðdráttarafl sem áfangastaður sé enn töluvert að sækja. „Takist okkur að tryggja beint millilandaflug, til og frá Egilsstöðum, eru möguleikarnir á auknum vexti greinarinnar nær óþrjótandi með tilheyrandi atvinnusköpun, auknum gjaldeyristekjum og fjölgun íbúa.“
Til stóð að hefja reglulegt áætlunarflug milli Egilsstaða og Frankfurt í sumar, en ekkert varð úr þeim áætlunum. Þar á undan hafði alþjóðlegt áætlunarflug um Egilsstaðaflugvöll síðast farið fram árið 2016, á vegum bresku ferðaskrifstofunnar Discover the World, til Lundúna. Í vetur hefur flugfélagið EasyJet flogið reglulegt áætlunarflug um Akureyrarflugvöll til London en í síðasta sumar voru fleiri möguleikar í boði á flugi út þaðan.
Myndin er frá undirskrift samningsins. Frá vinstri til hægri: Dagmar Ýr Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar; Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra; Pétur Óskarsson ,forstjóri Íslandsstofu, og Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdarstjóri Markaðsstofu Norðurlands.