Styrkja leigumarkað á landsbyggðinni með Brák
„Þarna er verið að styrkja íbúða- og leigumarkað á landsbyggðinni sérstaklega með því að koma öllum eignum inn í eitt, stórt félag í staðinn fyrir nokkur lítil,“ segir Snorri Styrkársson, stjórnarmaður í nýrri húsnæðissjálfseignarstofnun sem fengið hefur heitið Brák hses.
Bæði Múlaþing og Fjarðabyggð auk 29 annarra sveitarfélaga á landinu verða aðilar að stofnuninni og geta sem slík fært lausar eignir sínar inn í Brák sem svo sér um alla umsýslu í kjölfarið. Það er reyndar stefnt að því að samtvinna rekstur Brákar hses með leigufélaginu Bríeti, sem einnig leigir út eignir víðs vegar í landinu og er óhagnaðardrifið félag.
Ástæða þess að Brák hses er stofnað þegar fyrir er leigufélag á borð við Bríeti, sem er dótturfélag Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, segir Snorri skýringuna vera lagalega. Íbúðir Brákar séu helst ætlaðar þeim er lítið hafa milli handanna og kölluðust lengi vel félagslegar íbúðir.
„Munurinn á Brák annars vegar og Bríeti hins vegar má segja að sé að hlutverk húsnæðissjálfseignastofnana er utanumhald um íbúðir sem byggðar hafa verið eða keyptar með framlögum frá ríki eða sveitarfélögum og eru fyrst og fremst ætlaðar leigjendum sem eru undir ákveðnum tekju- eða eignamörkum.“