Styrkja stjórnendur í heimabyggð til að mæta stórum sumardögum

Stjórnendur Samkaupa segja unnið að úrbótum til að mæta því þegar vörur klárast í verslunum á landsbyggðinni á stórum dögum, einkum þegar margir ferðamenn eru á svæðinu.

Íbúar víða á Austurlandi hafa undanfarin ár kynnst því hvernig hillur verslana geta tæmst hratt þegar margt fólk kemur í bæinn, svo sem vegna sólar, stórra viðburða eða fjölda ferðafólks. Stundum er fólksfjölgunin vel fyrirsjáanleg, en stundum er hún óvænt. Þessir dagar eru hins vegar margfalt stærri en meðaldagar sem hefur áhrif á alla útreikninga í birgðakeðjunni.

Seyðfirðingar fundu sérstaklega fyrir þessu síðasta sumar. Austurfrétt fékk bæði ábendingar frá heimafólki, en gerði sér einnig ferð í verslunina, til að staðfesta sögur um að hillurnar, einkum með brauði, tæmdust snemma dags. Hvað erfiðast þótti ástandið þegar stór skemmtiferðaskip voru í höfn.

Samkaup reka Kjörbúðina, eina dagvöruverslun staðarins. Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri verslunar- og mannauðssviðs Samkaupa, segir keðjuna finna fyrir fjölgun ferðafólks í ákveðnum verslunum, til dæmis á Seyðisfirði. Viðskipti ferðafólks hafi víða farið fram úr væntingum.

Verslunarstjórar hafi látið vita að álag á verslanirnar aukist þegar skemmtiferðaskip koma við. Hún staðfestir að kvartanir hafi borist um birgðastöðu en segir þær „einhvernar, þó ekki margar.“

Fyrirtækið sé þó að bregðast við þessu. Þannig hafi verslanateymi verið styrkt og möguleikinn á fleiri miðlægum pöntunum, þar sem aðalskrifstofa styður við verslunarstjóra með að leita uppi sölusögu og bæta við, fyrir næsta sumar. „Við vonum að þessar aðgerðir leyfi okkur að betur mæta þörfum bæði árstíðarbundinna ferðamanna og heimafólks næsta sumar,“ segir hún.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.