Skip to main content

Styrkja Stöðvarfjörð með úthlutun til fimmtán mismunandi verkefna

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 14. mar 2025 10:19Uppfært 14. mar 2025 10:23

Rúmum ellefu milljónum króna var úthlutað til fimmtán mismunandi verkefna við fjórðu úthlutunarathöfn byggðaverkefnisins Sterks Stöðvarfjarðar fyrr í vikunni.

Tilvalið þótti að úthluta styrkjunum í Samkomuhúsi Stöðfirðinga sem var alfarið byggt í sjálfboðavinnu á sínum tíma og efldi samfélagið á staðnum frá upphafi líkt og hugmyndin er með styrkveitingarnar.

Hæsta staka styrkinn að þessu sinni, 1.9 milljón króna, hlaut Sköpunareldhúsið Fræ sem vill setja upp kaffihúsaeiningu í bænum. Skemmtifélag Stöðvarfjarðar naut sama styrks en í tvennu lagi til að efla félagið frekar og halda úti skemmtidagskrá.

Rúmlega 1,4 milljón til bakarísins Brauðdagar Deighús og svipuð upphæð til Kaffibrennslunnar Kvarnar til frekari tækjakaupa. Félag áhugahóps um fornleifarannsóknir á Stöð fékk 900 þúsund til flutnings á eldstæði og nytjaholu næsta sumar.

Flestir aðrir styrkirnir fóru til einstaklinga. Sólmundur Friðriksson fékk 600 þúsund til að halda áfram með sýningu sína Stöðfirskir bátar og skip við höfnina, Hlynur Ármannsson 650 þúsund til að skrifa sögu byggðarinnar, Lukasz Stencel tók við 685 þúsund krónum til að halda úti Bogfimifélagi staðarins og Silja Lind Þrastardóttir 400 þúsund til að útbúa hundagerði í þorpinu.

Síðast en ekki síst fékk Eva Jörgensen 115 þúsund vegna Stöðvarfjarðar Pride 2025, Kimi Tayler 300 þúsund til þekkingarmiðlunarverkefnis, Dominiki Anna sömu upphæð vegna sjálfbærra orkulausna, Le Temple 350 þúsund fyrir Litlu kirkjuna og loks fékk Björn Hafþór Guðmundsson 350 þúsund vegna útgáfutónleika.

Styrkþegarnir ánægðir að athöfninni lokinni en þetta var fjórða úthlutun til hinna ýmsu fjölbreyttu verkefna sem heimafólk vill koma á koppinn. Mynd Fjarðabyggð