Skip to main content

Suðurfjarðavegi áfangaskipt til að flýta framkvæmdum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. maí 2022 18:41Uppfært 05. maí 2022 18:44

Vegagerðin vinnur nú að því að skipta Suðurfjarðavegi, milli Reyðarfjarðar og Breiðdalsvíkur, upp í áfanga þannig að hægt verði að fara af stað með framkvæmdir ef fjármagn fæst. Breyta þarf veglínum í botni fjarða þar sem einbreiðar brýr munu víkja.


Suðurfjarðavegur og skipulag í kringum hann hefur verið meðal þess sem rætt hefur verið á opnum framboðsfundum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í Fjarðabyggð í vikunni. Meðal annars hefur verið spurt hvort rétt sé að fjármagn hafi verið klárt samhliða auknum framkvæmdum vegna Covid-faraldursins árið 2020 en skipulag sveitarfélagsins ekki verið tilbúið.

Þessu hefur verið hafnað af fulltrúum þeirra framboða sem sæti eiga í bæjarstjórn Fjarðabyggðar í dag. Fram hefur komið að vissulega hafi verið möguleiki á fjármagni þegar gerð var gangskör í að fækka einbreiðum brúm á Hringveginum fyrir tveimur árum.

Þá var frumhönnun vegarins ekki klár og að sögn Jóns Björns Hákonarsonar, bæjarstjóra, umhverfisrannsóknum ólokið sem og samningum við landeigendur. Síðar þurfi að breyta skipulagi sveitarfélagsins þegar frumhönnunin liggur fyrir.

Einbreiðar brýr í slæmu ástandi

Í svari Vegagerðarinnar við fyrirspurn Austurfréttar kemur fram að frumdrög hafi verið gerð að endurbyggingu Suðurfjarðavegarins árið 2020, sem séu grundvöllur frekari undirbúnings. Að stórum hluta er gert ráð fyrir að endurbyggja veginn um eða við núverandi vegstæði.

Nokkrar breytingar verða hins vegar í fjarðarbotnum Reyðarfjarðar, Stöðvarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar þar sem nú eru einbreiðar brýr sem séu „í slæmu ástandi.“ Á framboðsfundunum hefur verið bent á að Sléttuá sé bæði umferðarþyngsta einbreiða brú landsins, auk þess sem á henni og Stöðvará séu þungatakmarkanir þannig stór tæki þurfi að fara yfir vöð til að komast til Fáskrúðsfjarðar.

Í svari Vegagerðarinnar segir að undanfarið hafi verið unnið að rannsóknum vegna efnistöku. Í sumar verða gerðar umhverfisrannsóknir auk mælinga og undirbúningsrannsókna fyrir frekari hönnun. Þá verður gerð kynningarskýrsla vegna breytinga á veglínum um botn Reyðarfjarðar.

Í gildandi samgönguáætlun er ekki reiknað með framkvæmdum á Suðurfjarðavegi fyrr en árið 2030. „Unnið er að frekari áfangaskiptingu framkvæmda með það að markmiði að hægt sé að ráðast í breytingar í botni Reyðarfjarðar um leið og fjárveitingar fást til framkvæmda,“ segir í svari Vegagerðarinnar.

Boða aukinn þrýsting

Sem fyrr segir er Suðurfjarðavegur meðal þeirra málefna sem rædd hafa verið á framboðsfundum vikunnar. Frambjóðendur eru sammála um að framkvæmdir þar séu forgangsatriði, bæði vegna öryggis en líka til að greiða aðgengi að þjónustu, til dæmis tómstundum, innan Fjarðabyggðar.

„Suðurfjarðavegurinn er stórhættulegur. Við hann verður að hefjast handa strax. Til þess þarf stöðuga pressu á ríkisstjórnina til að tryggt sé að hafist verði handa á komandi kjörtímabili,“ sagði Anna Margrét Arnarsdóttir sem leiðir framboð Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

Fulltrúar meirihluta Framsóknarflokks og Fjarðalista hafa talað um að skipta þurfi framkvæmdinni upp í áfanga til að flýta fyrir. Ragnar Sigurðsson, oddviti Sjálfstæðisflokks, hefur gagnrýnt framboðin fyrir að leggjast ekki fastar á árarnar fyrr.

„Það er rétt að vandinn er ekki skipulag sveitarfélagsins en okkar vandi er slagkrafturinn, hann hefur ekki verið nægur. Við höfum ekki verið nógu öflug að tala um þau verkefni og framkvæmdir sem fara þarf í í Fjarðabyggð. Ef við erum ekki hávær og bendum á okkar verkefni fara peningarnir annað. Þetta á ekki bara við um samgöngumál, við verðum stöðugt að krefjast hærra hlutfalls opinbers fjármagns í samgöngu-, mennta- og heilbrigðismál,“ hefur hann sagt.

Tengslin við stjórnarflokkana

Til snarpra orðaskipta kom milli hans og Hjördísar Helgu Seljan í lok framboðsfundar á Eskifirði í gærkvöldi vegna þessa. „Ég hélt þið væruð í svo góðum tengslum við Sigurð Inga (Jóhannsson, innviðaráðherra) og Bjarna (Benediktsson, fjármálaráðherra) – en þeir eru kannski of uppteknir við að taka á skandölum innan ríkisstjórnarinnar.“

Ragnar svaraði því að tengslin við Sjálfstæðisflokkinn „trufluðu örugglega ekki,“ og spurði hvort Hjördís væri ekki enn skráð í VG. Hann sagði að svo virtist sem frambjóðendur Fjarðalistans sem tengdust landsmálaflokkum tengdust engum á tyllidögum og bætti svo við: „Ef Fjarðalistinn er að vitna í sölu Íslandsbanka þá væri þeim nær að líta sér nær. Þau seldu Rafveitu Reyðarfjarðar og þar mátti enginn gera tilboð nema þessi eini sem rætt var við. Þar var gagnsæið ekki neitt.“