Skip to main content

Súr Stúlka KHB Brugghúss hlaut gullverðlaun á World Beer Awards

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. ágú 2025 10:51Uppfært 20. ágú 2025 11:06

Það ekki á hverjum degi sem lítið íslenskt brugghús fær verðlaun fyrir afurð sína í stórri alþjóðlegri keppni og hvað þá þrenn verðlaun eins og KHB Brugghúsið á Borgarfirði eystra vann til í síðustu viku á hinni þekktu World Beer Awards.

Þúsundir framleiðenda um heim allan senda bjóra sína í keppni þessa ár hvert þar sem sérfræðingar, bruggarar og blaðamenn dæma hvern og einn mjöð eftir kúnstarinnar reglum þó megin áherslan sé á bragð, stíl og gæði.

Súrbjórinn Stúlka, sem bruggmeistari KHB hefur verið að prófa sig áfram með í eitt og hálft ár fékk gullverðlaunin í flokknum Sour & Wild Beer en í þann bjór er auk annars notaður rabbabari og jarðarber. Hinn klassíski lagerbjór Borghildur hlaut einnig mjög góðar undirtektir dómara og hlaut silfrið en sá bjór vann til sömu verðlauna í annarri stórri keppni á síðasta ári. Þriðji bjór borgfirska brugghússins, Steinbúi, fékk svo bronsverðlaunin í flokknum American Style Pale Ale en Steinbúinn var einn allra fyrsti bjórinn sem brugghús KHB framleiddi.

Helgi Sigurðsson, einn eigenda brugghússins, var afar ánægður með þennan frábæra árangur í keppninni:

„Það er mikil viðurkenning að hljóta þessi verðlaun og sérstaklega ánægjulegt að sjá íslenskan handverksbjór fá alþjóðlega viðurkenningu meðal fremstu bjóra heims. Með þessum árangri staðfestir KHB Brugghús stöðu sína meðal áhugaverðustu og skapandi brugghúsa á Íslandi, og undirstrikar þá metnaðarfullu nálgun sem brugghúsið hefur á framleiðslu handverksbjóra úr einstöku hráefni og með innblæstri úr íslenskri náttúru og sögu.

Bjórúrval KHB Brugghúss eykst ár frá ári og nú hægt að bragða einar tíu mismunandi tegundir sem þar eru framleiddar. Mynd KHB Brugghús