Sveiflukennt fasteignaverð á Austurlandi
Meiri sveiflur hafa verið í fasteignaverði á Austurlandi heldur en víðast annars staðar á landsbyggðinni undanfarin fimm ár. Fasteignaverðið hefur lækkað lítillega á báðum stöðum.
Þetta kemur fram í nýlegri úttekt hagfræðideildar Landsbanka Íslands um fasteignaverð í stærstu sveitarfélögum landsbyggðarinnar.
Fasteignaverð á Fljótsdalshéraði féll snarpt árið 2009, úr 150 þúsund krónum á fermetra í tæp 100 þúsund. Það hækkaði aftur árið 2010 í rúm 140 þúsund og aftur í tæp 160 þúsund árið 2011. Í fyrra var það 146 þúsund krónur á fermetrann. Það gerir 3% lækkun frá síðari hluta ársins 2008.
Í Fjarðabyggð kostaði fermetrinn um 120 þúsund krónur árið 2008 en 100 þúsund árið eftir. Verðið hækkaði á nýjan leik í 116 þúsund í fyrra sem þýðir 4% lækkun á tímabilinu. Til samanburðar má nefna að fermetraverðið í Reykjavík í fyrra var 238 þúsund krónur.
„Á báðum þessum stöðum var byggt mikið af nýju húsnæði á árunum fyrir hrun og framboð því verið mikið. Það hefur eflaust haft mikil áhrif á fasteignamarkaðinn á þessum stöðum,“ segir í greiningunni.
Niðurstöður könnunarinnar benda til þess að fasteignaverð á landsbyggðinni fylgi þróun atvinnulífs á viðkomandi stað. Atvinnuleysi jókst í sveitarfélögunum tveimur um 2% á tímabilinu.