Sveitarfélög Austurlands með sitt á hreinu varðandi akstursþjónustu fyrir fatlaða og eldri borgara
Engar athugasemdir voru gerðar við þjónustu austfirskra sveitarfélaga í úttekt sem Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála (GEV) gerði á síðasta ári með spurningalistum. Þar kom í ljós að allmörg sveitarfélög landsins fara á svig við reglur í þeim málum.
Gerð var frumkvæðisathugun af hálfu GEV á stöðu akstursþjónustu fyrir fatlaða einstaklinga og eldri borgara en lög kveða á um að sveitarfélögum sé skylt að sinna slíku upp að marki, annaðhvort sjálf eða gegnum einkaaðila, og þá gera það með aðilum sem leyfi hafa til að veita slíka þjónustu.
Miklar brotalamir komu í ljós við athugun stofnunarinnar og þar helst að umtalsverður fjöldi þeirra aðila sem sveitarfélög landsins ráða til þess starfa höfðu ekki tilskilin og nauðsynleg rekstrarleyfi en gerðar eru sérstakar kröfur til aðila sem keyra með fatlaða einstaklinga. Einungis tveir einkaaðilar höfðu formlegt rekstrarleyfi til aksturs og umsókn tveggja annarra í vinnslu í upphafi könnunarinnar en í lok janúar höfðu alls tíu fengið formlega blessun GEV.
Samkvæmt svari stofnunarinnar við fyrirspurn Austurfréttar vegna þessa reyndust sveitarfélögin á Austurlandi með sitt á hreinu og engar athugasemdir, ábendingar né tilmæli hafi þeim verið send í kjölfar úttektarinnar.